Stök frétt

Á árinu 2009 lauk vinnu við verndaráætlun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Markmið áætlunarinnar er að tryggja vernd náttúru- og menningarminja. Í þessu felst m.a. að náttúra þjóðgarðsins fái að þróast eftir eigin lögmálum eins og kostur er, um leið og almenningi er gert kleift að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða. Fleiri ferðamönnum fylgir aukið álag á náttúruna og eykur það þörfina á skipulagi vegna verndunar innan þjóðgarðsins. Verndaráætlunin felur í sér stefnumörkun til framtíðar. Framkvæmdaáætlun, sem lýsir þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að framfylgja markmiðum verndaráætlunarinnar, var unnin samhliða. Verndaráætlun felur því ekki einvörðungu í sér stefnumörkun til framtíðar heldur er hún einnig stjórntæki sem tekur m. a. á landvörslu, skipulagi, vernd og stjórnun.

Vinna við verndaráætlunina hefur tekið langan tíma. Áætlunin er send ráðherra til staðfestingar. Verndaráætlunin ber með sér leiðir til að ná settum markmiðum en auk þess fylgja fimm viðaukar með áætluninni. Þeir eru verkefnaáætlun og framkvæmdaáætlun ásamt köflum um jarðfræði, lífríki og menningarminjar í þjóðgarðinum. Margir komu að vinnu við verndaráætlunina og var leitað álits opinberra aðila og almennings við gerð hennar.

Úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2009