Falsanir

Borið hefur á því að falsaðar snyrtivörur hafi verið í sölu hér á landi. Um er að ræða snyrtivörur seldar undir vörumerkjum framleiðenda frá Evrópu eða Bandaríkjunum. Vörurnar bera þess merki að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til snyrtivara sem settar eru á markað á Íslandi og í Evrópu. Staðreyndin er hins vegar sú að þær eru oft á tíðum framleiddar í verksmiðjum utan Evrópu, þar á meðal í Asíu, þar sem gæðaeftirliti er ábótavant og síðan seldar hér á markaði.

Oft eru útlitsleg gæði þessara falsanna mjög mikil og því getur reynst erfitt að sjá hvort um fölsun sé að ræða. Tollayfirvöld hafa stundum brugðið á það ráð að senda sýnishorn af vörunum út til framleiðenda til að fá staðfestingu á því hvort um falsanir sé að ræða.

Af hverju geta falsaðar snyrtivörur verið varasamar?

Ólíkt ósviknum snyrtivörum hafa falsaðar snyrtivörur ekki gengist undir nauðsynlegar prófanir sem skylda er að undirgangast til að geta sett snyrtivörur á markað í Evrópu. Ef varan hefur ekki verið prófuð og fylgir ekki reglum EES um efnainnihald er ómögulegt að vita fyrir víst hvaða efni eru notuð í vörurnar. Þessar vörur geta því mögulega innihaldið efni sem hafa skaðleg áhrif á heilsu manna og geta aukið hættu á ofnæmi og ýmsum húðkvillum.

Hvernig á að komast hjá því að kaupa falsaðar snyrtivörur ?

Best er að varast kaup á snyrtivörum sem boðnar eru til sölu með óhefðbundnum söluleiðum og versla fremur beint frá fullgildum útsölustöðum.

Neytendur ættu að vera sérstaklega vakandi fyrir fölsunum þegar:

  • Salan fer fram í gegnum vefverslun sem ekki tengjast fullgildum útsölustöðum
  • Salan fer fram á markaði með nýjar og notaðar vörur
  • Salan fer fram í heimahúsum eða í gegnum síma
  • Verð vörunnar er mun lægra en venja er
  • Verið er að bjóða eingöngu stakar vörur frá framleiðanda en ekki alla vörulínuna

Viðurlög

Vakin skal athygli á því að það að kaupa falsaðar snyrtivörur jafnt sem bjóða slíkar snyrtivörur til sölu getur varðað við almenn hegningarlög.