Minkar

Sérákvæði um minkaveiðar

8. gr. Menn sem ráðnir eru til minkaveiða skulu að jafnaði veiða á tímabilinu 20. apríl til 30. júní. Þar sem sveitarstjórn og veiðistjóra þykir betur henta má skipuleggja minkaveiðar á öðrum árstímum. Skylt er að ganga þannig um minkabæli að ekki hljótist landspjöll af. Ráðnir minkaveiðimenn skulu leita meðfram sjó, ám og vötnum þar sem líklegt telst að minkabæli finnist. Minkaveiðimenn skulu vera vel tækjum búnir og hafa með sér vana minkaveiðihunda ef þess er nokkur kostur. Séu gildrur lagðar fyrir mink skal þannig um þær búið að öðrum dýrum stafi sem minnst hætta af. Ef fótbogar og dauðagildrur eru notaðar skal búa um þær þannig að minkurinn láti lífið á sem skjótastan hátt. Gerðir fótboga og gildra skulu hafa hlotið samþykki ráðgjafarnefndar um villt dýr. Minkur sem næst lifandi skal aflífaður á sem skjótvirkastan hátt.

Leiðbeiningar og uppgjör vegna veiða

9. gr. Skylt er veiðistjóra að leiðbeina grenjaskyttum og minkaveiðamönnum, sem sveitarfélög semja við um refa- og minkaveiðar, um veiðiaðferðir, veiðitækni og búnað við veiðar. Veiðistjóri skal og veita allar upplýsingar og aðstoð sem tök eru á, halda námskeið fyrir veiðimenn eftir þörfum og gera tilraunir með ný tæki og veiðiaðferðir. Grenjaskyttur og minkaveiðmenn, sem sveitarfélög semja við um refa- og minkaveiðar, skulu í starfi stuðla að aukinni þekkingu á refum og minkum í samvinnu við veiðistjóra og láta í té sýni úr felldum dýrum sér að kostnaðarlausu, fari veiðistjóri fram á það eða aðrir sem hann samþykkir.

10. gr. Umhverfisráðherra ákveður árlega viðmiðunartaxta launa grenjaskyttna og minkaveiðmanna og verðlauna fyrir löglega unna refi og minka. Verðlaun fyrir unnin dýr skulu aðeins greidd sé skott af hverju unnu dýri lagt fram til sönnunar. Gildir þetta jafnt um ráðnar grenjaskyttur og minkaveiðimenn sem aðra. Vilji veiðimaður hagnýta sér skinn af unnu dýri getur hann sannað veiði sína með því að leggja skinnið fram hjá sveitarstjórn. Skal þá skinnið auðkennt með merkibleki á innanvert skottið og skal stungið í merkið með oddhvassri nál. Við uppgjör skulu grenjaskyttur og menn sem ráðnir eru til minkaveiða leggja fram sundurliðaða reikninga og útdrátt úr dagbók þar sem skráð er hvar og hvenær grenjaleit og veiðar fóru fram. Skulu afrit af kvittunum og útdráttur úr dagbók fylgja árlegu reikningsyfirliti til veiðistjóra, sbr. 11. gr.

11. gr. Uppgjörstímabil vegna refa- og minkaveiða er frá 1. september ár hvert til 31. ágúst næsta ár. Skylt er oddvitum, sveitarstjórum, bæjarstjórum og öðrum þeim, er sjá um framkvæmd refa- og minkaveiða, að senda veiðistjóra skýrslu um veiðina ásamt reikningsyfirliti innan 6 vikna frá lokum uppgjörstímabils. Veiðistjóri endurskoðar reikninga vegna refa- og minkaveiða. Úrskurði veiðistjóri að reikningar séu réttir og hóflegir endurgreiðir ríkissjóður viðkomandi sveitarfélagi helming útlagðs kostnaðar við veiðarnar. Veiðistjóri skal árlega birta upplýsingar um veiðarnar og kostnað við þær. Vanræki sveitarstjórn að framfylgja fyrirmælum þessarar greinar er umhverfisráðherra heimilt að svipta það sveitarfélag framlagi því úr ríkissjóði sem gert er ráð fyrir í reglugerðinni, eitt ár í senn.

Refsiákvæði

12. gr. Brot gegn reglugerð þessari varða sektum, varðhaldi eða fangelsi, upptöku skotvopna og sviptingu veiðileyfis, sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994. Mál út af slíkum brotum sæta meðferð opinberra mála.

Heimildarákvæði

13. gr. Reglugerð þessi er sett samkvæmt 7., 12. og 13. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 358/1994 um að aflétta friðun refa og um veiðar á refum og minkum.

Umhverfisráðuneytið, 31. júlí 1995.

F. h. r.

Magnús Jóhannesson Sigurður Á. Þráinsson