Efni í vörum utan EES

Atriði sem gott er að hafa í huga þegar keyptar eru vörur utan EES, einkum í gegnum netverslanir sem ekki eru með lager eða verslun í Evrópu:

  • Hvaðan er varan að koma?

Niðurstöður evrópskra eftirlitsverkefna benda til að meiri líkur séu á óæskilegum efnum í vörum frá Kína, Indlandi, Tælandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

  • Er selt innan EES/ESB sérstaklega?

Netverslanir sem selja sérstaklega innan svæðisins þurfa að vera með nafn, heimilisfang, símanúmer og tölvupóstfang á vefsíðunni. Meiri líkur eru á því að vörur frá slíkum verslunum standist kröfur Evrópusambandsins þar sem eftirlitmenn aðildarríkjanna eiga auðveldara með að hafa eftirlit með slíkum fyrirtækjum.

  • Er verðið of gott til að vera satt?

Hugsum okkur þá tvisvar um hvort þetta séu góð kaup – mjög lágt verð getur bent til að framleiðendur hafi stytt sér leið við framleiðslu vörunnar – oft á kostnað öryggis.

Hugsum okkur tvisvar um ef við viljum versla eftirfarandi:

  • Snyrti- og húðvörur
  • Leikföng fyrir börn undir 3 ára
  • Leikföng úr mjúku plasti
  • Aðrar vörur úr mjúku plasti


Almenn umfjöllun

Undanfarin ár hefur það færst í aukana að versla á netinu alls konar varning þar sem þægindi, framboð og verð spila stórt hlutverk. Ýmis öpp og vefsíður selja nú aðeins rafrænt og hafa ekki búðir þar sem kaupandi getur komið og skoðað. Þessu fylgir því miður aukin hætta á að vörur sem keyptar eru af netverslunum utan EES innihaldi varasöm efni.

Innan EES er að finna ströngustu efnalöggjöfina í heiminum. Ýmis varasöm efni hafa nú þegar verið bönnuð og/eða takmörkuð í alls kyns hlutum svo sem leikföngum, snyrtivörum, fatnaði og skóm, eldhúsvörum og öðrum hversdagshlutum. Þetta þýðir að þegar við verslum erlendis eða af netverslunum sem eru utan svæðisins þá getum við aukið líkur á snertingu við varasöm efni sem eru óæskileg fyrir heilsu okkar og umhverfið.

Þótt netverslanir utan EES sendi til Íslands er ekki hægt að taka því sem vísu að vörurnar standist löggjöf EES um efnainnihald. Þetta á við um alla þá sem búa innan svæðisins og eru að versla utan þess vegna þess að þegar netverslun tilheyrir ekki svæðinu eiga yfirvöld og eftirlitsstofnanir erfiðara með að láta þær fylgja reglum svæðisins. Því er meiri áhætta á að vörurnar innihaldi óæskileg efni eða jafnvel efni sem eru bönnuð hérlendis en ekki í upprunalandinu.

Mikilvægt er því fyrir neytendur að vera meðvitaðir um hvaðan varan sem þeir eru að panta er að koma og hugsa sig tvisvar um þegar verðið er of gott til að vera satt. 

Eftirlit og athuganir á vörum utan svæðisins

Neytendasamtök Danmerkur athuga reglulega efnainnihald ýmissa vara og birta á heimasíðu sinni. Þau létu athuga nokkrar snyrtivörur og leikföng sem keyptar voru af netverslunum utan svæðisins og voru þó nokkrar með varasöm efni.

Efnastofnun Svíþjóðar fór í eftirlit með Tollgæslunni til að skoða innflutta skartgripi og hægt er að nálgast skýrsluna hér, en mikið var um of hátt magn blýs og kadmíums.

Skýrsla um aukna efnaáhættu vegna vara sem keyptar eru af netverslunum sem gefin er út af Efnastofnun Svíþjóðar má nálgast hér. Þar er bent á aukna áhættu þegar vörur eru keyptar frá löndum utan EES sem eru ekki með ábyrgan rekstraraðila innan svæðisins.


Tengt efni


Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 3. apríl 2024.