Almennt

Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja bera ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn hingað til lands. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Ábyrgð framleiðanda og innflytjenda nær til landsins alls án tillits til þess hvar varan er seld.

Framleiðendur og innflytjendur eiga einnig að sjá til þess að raf- og rafeindatæki séu merkt með mynd af yfirstrikaðri sorptunnu, en merkið gefur til kynna að safna skuli raftækjum sérstaklega. Framleiðendum og innflytjendum ber einnig að upplýsa kaupendur um mikilvægi endurnotkunar, endurnýtingar og endurvinnslu og að mögulega geti verið efni í tækjunum sem hættuleg eru heilsu manna og dýra.

Í verslunum með sölusvæði stærra en 400m2 á að taka á móti litlum raf- og rafeindatækjum (með ekkert ytra mál yfir 25cm) án endurgjalds og skilyrða.

Erlendum framleiðendum er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa hér á landi sem yrði ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans. Íslenskir framleiðendur sem selja raf- og rafeindatæki með fjarskiptamiðlum beint til notenda í öðru EES ríki skulu tilnefna viðurkenndan fulltrúa í því ríki.

Markmiðið með ofangreindri framleiðendaábyrgð er að draga úr myndun raf- og raftækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra sem koma að vörunni á lífsferli hennar.

Framleiðandi og innflytjandi er aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð,

  • framleiðir raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki eða lætur hanna eða framleiða raf- og rafeindatæki og markaðssetur undir eigin heiti eða vörumerki, í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
  • endurselur raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð; endursöluaðili telst þó ekki vera framleiðandi ef vörumerki framleiðandans er á tækjabúnaðinum eins og kveðið er á um í i. lið,
  • setur raf- og rafeindatæki frá öðru ríki á markað í atvinnuskyni í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
  • selur raf- og rafeindatæki með fjarsamskiptamiðlum beint til notenda yfir landamæri, eða
  • flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni.

 

 

Breytt fyrirkomulag við innflutning frá 1. janúar 2015

Raf- og rafeindatæki falla nú undir lög nr. 162/2002 um úrvinnslugjald. Sjá nánar einnig urvinnslusjodur.is. Úrvinnslusjóði er falið það hlutverk framleiðanda og innflytjanda að tryggja söfnun og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Sjóðnum ber einnig að ná tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Til að standa undir kostnaði er lagt á sérstakt úrvinnslugjald. Framleiðendum og innflytjendum ber einnig að vera skráðir í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda hjá Umhverfisstofnun og gerist það sjálfvirkt í gegnum Tollstjórann.

Lög og reglugerðir

Kynning á breytingu á reglugerðum um rafhlöður, rafgeyma og raf- og rafeindatæki 

Í október var haldinn stuttur kynningarfundur fyrir atvinnurekendur og sveitarfélög um breytingar á reglugerðum um rafhlöður og rafgeyma og raf- og rafeindatækjaúrgang. Einnig var farið stuttlega yfir í hverju eftirlit Umhverfisstofnunar felst. Kynninguna má sjá hér.