Umhverfisábyrgð

Ný heildarlög um umhverfisábyrgð nr. 55/2012 tóku gildi 22. júní síðastliðinn og vinnur Umhverfisstofnun nú að undirbúningi kynningarfundar á þeim fyrir hagsmunaaðila.

Með lögum um umhverfisábyrgð er greiðsluregla umhverfisréttarins, eða mengunarbótareglan (Polluter Pays Principle), innleidd í íslenskan rétt. Um er að ræða eina af meginreglum umhverfisréttarins og merkir hún að sá sem veldur mengun skal bæta það umhverfistjón sem af henni hlýst og bera allan kostnað vegna þess. Með lögunum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB um umhverfisábyrgð sem birt var 19. mars 2009 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16/2009.

Markmið laganna er að tryggja að sá sem ber ábyrgð á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni af völdum atvinnustarfsemi, komi í veg fyrir tjón eða bæti úr tjóni ef það hefur orðið og beri kostnað af ráðstöfunum sem af því leiðir.

Umhverfisstofnun fer með stjórnsýslu og hefur eftirlit með framkvæmd laganna.

Umhverfistjón

Það umhverfistjón sem lögin gilda um varðar tjón á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum, tjón á vatni og tjón á landi. Umhverfistjón er nánar skilgreint í 3. gr. laganna.

Þeim rekstraraðila sem ber ábyrgð á tjóni er skylt að greiða allan kostnað vegna úrbóta. Einnig ber honum að greiða allan kostnað vegna rannsókna og annarra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir eða afstýra yfirvofandi hættu á umhverfistjóni.

Lögin gilda ekki um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni þegar liðin eru meira en 30 ár frá því að sá atburður sem orsakaði tjónið eða hættuna á tjóni átti sér stað.

Bóta- og tilkynningarskyldir aðilar

Lögin ná til rekstraraðila leyfisskyldrar atvinnustarfsemi sem nánar er skilgreind í II. viðauka laganna vegna umhverfistjóns og yfirvofandi hættu á umhverfistjóni af völdum slíkrar starfsemi. Ábyrgð rekstraraðila er hlutlæg og þar með óháð því hvort um gáleysi eða ásetning er að ræða. Lögin gilda auk þess um umhverfistjón á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum og yfirvofandi hættu á slíku tjóni sem rekja má til annarrar atvinnustarfsemi en þeirrar sem fellur undir II. viðauka og valdið er af ásetningi eða gáleysi.

Þeim rekstraraðilum sem lögin taka til er skylt að tilkynna Umhverfisstofnun þegar í stað um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni og grípa til nauðsynlegra varnaðarráðstafana. Bráðamengun á landi skal tilkynna til lögreglu í síma 112 og bráðamengun á sjó til Landhelgisgæslunnar í síma 511-3333.

Fjárhagsleg trygging rekstraraðila

Samkvæmt lögunum skal sá rekstraraðili sem ber ábyrgð á umhverfistjóni setja fram fjárhagslega tryggingu fyrir efndum á skyldum sínum að því er varðar varnarráðstafanir og aðrar aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir frekara tjón, afstýra hættu á tjóni og lagfæra tjón sem orðið hefur en ráðherra setur nánari reglur um setningu tryggingar. Þær reglur hafa enn ekki verið settar. Fyrirspurnir til Umhverfisstofnunar varðandi umhverfisábyrgð skal senda á ust@ust.is.

Tenglar