Háubakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Á svæðinu er að finna þykk setlög sem bera merki um áhrif loftslagsbreytinga á ísöld.
Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Háubakka er verndun fágætra jarðminja svæðisins í núverandi mynd.
Jarðminjar
Setlögin í Háubökkum tilheyra svokölluðum Elliðavogslögum sem mynduðust að öllum líkindum á löngu tímabili sem hófst fyrir meira en 300 þúsund árum og varði í að minnsta kosti 100 þúsund ár. Í setlögunum er bæði sjávar- og þurrlendisset sem bendir til þess að sjávarstaða hafi verið all breytileg á þeim tíma er setlögin mynduðust. Elliðavogslögin eru talin ná frá Brimnesi suður að Álftanesi, en Háubakkar eru með betri stöðum þar sem opnur eru að setlögunum sem víðast hvar eru grafin fyrir neðan yngri hraun- og setlög.
Neðstu setlögin eru jökulberg, líklega rúmlega 300 þúsund ára gamalt. Fyrir ofan jökulbergið taka við sjávarsetlög sem benda til hærri sjávarstöðu í kjölfar þess að jöklar bráðnuðu. Í sjávarsetlögunum er nokkuð af steingervingum, einkum samlokutegundir, t.d. kúfskel, krókskel og hallloka. Þessar tegundir eru nokkuð kuldasæknar og bendir það til þess að hiti sjávar hafi verið um 1-2°C lægri en í dag. Fyrir ofan sjávarsetið er meira jökulberg sem talið er vera um 250 þúsund ára gamalt. Efst í setlögunum er síðan þurrlendisset, einkum móset, meðal annars surtarbrand sem bendir til þess að gróskusamt votlendi hafi verið á svæðinu og loftslag hlýrra en nú. Ýmsar plöntuleifar er að finna í surtarbrandinum.
Þær jarðminjar sem er að finna í Háubökkum veita mikilvæga innsýn í jarðsögu Reykjavíkur og endurspegla setlögin um 100 þúsund ára sögu sem einkennist af miklum umskiptum í veðurfari, sjávarstöðu og landmótun. Þá veita þau einnig góðar upplýsingar um lífríki sjávar og gróðurfar á þurrlandi.
Gróður og dýralíf
Verndun lífríkis er ekki upprunalegt markmið með friðýsingu Háubakka. Hins vegar liggur svæðið að fjörum þar sem er töluvert fuglalíf og nokkuð um strandgróður. Þá er fjölbreytileiki plantna sem vex ofan á bökkunum og í skriðum mikill, sérstaklega gras og blómlendi, auk þess sem nokkuð stórvaxinn trjágróður finnst á svæðinu. Ágengar tegundir eins og alaskalúpína og skógarkerfill finnast á svæðinu.
Fuglar eru áberandi á svæðinu, einkum vaðfuglar, enda stendur svæðið við vog. Skordýralíf er töluvert.
Náttúruvættið er 2,1 hektarar að stærð.
Friðlýsta svæðið á Háubökkum er staðsett innst í Elliðaárvogi í Reykjavík. Svæðið liggur að Súðarvogi í vestri, að Naustavogi í austri og að mótum gatnanna tveggja í suðri. Í norðri liggur svæðið að lóðum sem tilheyra athafna- og verslunarhúsnæði í Súðarvogi. Svæðið liggur að mjóum vogi sem er aðskilinn frá öðrum hlutum Elliðaárvogs og Elliðaánum með landfyllingu sem hýsir smábátahöfnina í Naustavogi.
Svæðið er langt og mjótt og lítið um undirlendi.
Umgengnisreglur
Háubakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983 með auglýsingu nr. 347/1983 í Stjórnartíðindum B.
Svæðið er í umsjón Reykjavíkurborgar samkvæmt umsjónarsamningi sem gerður var í júní 2015. Samhliða undirritun umsjónarsamnings var samþykkt verndar- og stjórnunaráætlun fyrir svæðið sem gildir til ársins 2024.
Háubakkar eru á appelsínugulum lista yfir svæði í hættu.
Styrkleikar Svæðið býr yfir sérstæðum jarðmyndunum. Starfsmenn Umhverfisstofnunar hafa tekið svæðið út og einnig hefur verið fjarlægt mikið magn af rusli af svæðinu. Svæðið er innan höfuðborgarsvæðisins og gæti nýst, t.d. við útikennslu, ef innviðir þess væru styrktir. Í skýrslu náttúruverndarnefndar Reykjavíkur kemur fram að borgin hafi gert ítarlega úttekt á ástandi svæðisins og verndargildi þess hafi verið metið sumarið 2013. Mest allt brotajárn og annað rusl var fjarlægt af svæðinu bæði af sjálfboðaliðum Umhverfisstofnunar og starfsmönnum borgarinnar. Borgin lét setja upp tvö ný fræðsluskilti byrjun árs 2014. Veikleikar Jarðmyndanir þola illa ágang. Svæðið er staðsett í iðnaðarhverfi innan borgarmarkanna. | Ógnir
Tækifæri
|