Norrænt eftirlitsverkefni um efni í hlutum sem gefnir eru almenningi í kynningarskyni

Út er komin út skýrsla um norrænt eftirlitsverkefni sem beindist að hættulegum efnum í kynningarvörum sem fyrirtæki gefa viðskiptavinum sínum í því skyni að vekja athygli á vörum og þjónustu sem þau bjóða fram á markaði. Stór markhópur fyrir þessar vörur eru börn.

Það einkennir gjarnan vörur sem gefnar eru í kynningarskyni að þeim er ekki ætlað að endast í langan tíma, í þær eru valin ódýr hráefni og almennt litlu til kostað við framleiðslu þeirra. Framleiðandinn er oftast staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins og þá yfirleitt í Kína. Þaðan berast vörurnar til birgja innan EES, sem sérsníða þær að þörfunum sem viðskiptavinurinn vill að þær þjóni, svo sem að merkja þær með ákveðnu vörumerki eða auðkennum fyrirtækis. Mikilvægt er að átta sig á því hér að ekki er gerður greinarmunur á því hvort vara sem sett er á markað sé ætluð til sölu eða til þess að afhenda viðskiptavinum án endurgjalds. Kynningarvörur eru því ekki undanskyldar frá ákvæðum efnalöggjafarinnar.

Þegar ekki er vandað nógu vel til vals á hráefnum við framleiðslu á kynningarvörum getur það leitt til þess að í þær eru notuð ódýr efni, sem eru skaðleg fyrir heilsu okkar og umhverfið og af þeim sökum ýmist bönnuð á innri markaði EES eða takmarkanir hafa verið settar um notkun þeirra.

Í verkefninu voru valdar vörur til efnagreininga úr vöruflokkum sem metið var líklegt að uppfylltu ekki kröfur m.t.t. efnainnihalds miðað við reynslu úr öðrum eftirlitsverkefnum í þessum löndum. Þannig urðu fyrir valinu vörur úr mjúku plasti, leikföng úr plasti eða málmum, raf- og rafeindavörur, vefnaðarvörur og ýmsar aðrar vörur eins og skartgripir, rafhlöður og vörur úr hörðu plasti.
Hlutfall vara sem ekki uppfylltu kröfur varðandi efnainnihald var eftirfarandi:
 a.        35% af vörum úr mjúku plasti
 b.        25% af raf- og rafeindavörum
 c.        17% af leikföngum
 d.        2% af öðrum vörum.

Allar vefnaðarvörur og rafhlöður sem komu til skoðunar í verkefninu stóðust aftur á móti kröfur varðandi efnainnihald.

Smelltu hér ef þú vilt kynna þér skýrsluna um verkefnið.

Ávinningurinn af því að standa sameiginlega að eftirlitsverkefni sem þessu er margvíslegur og felst einkum í:

  • auknu samræmi í eftirliti með Evrópsku efnalöggjöfinni á öllum Norðurlöndum
  • meira jafnræði á milli fyrirtækja með því að koma í veg fyrir tvöfalt eftirlit
  • aukinni samvinnu milli stjórnvalda sem sinna efnaeftirliti á svæðinu í því skyni að nýta betur fjárveitingar til eftirlits með hættulegum efnum
  • gagnlegum skiptum á upplýsingum og reynslu í efnaeftirliti
  • meiri skilvirkni í efnaeftirliti með því að samhæfa það fyrir heilan geira á öllu norrænna markaðssvæðinu

Verkefnið hér á landi

Umhverfisstofnun tók þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd og valdi eftirlitsþega með það í huga að í úrtaki væru aðilar sem ná til fólks um allt land og horft var sérstaklega til kynningarvara fyrir yngri kynslóðir. Fyrir valinu urðu Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn.
Eftirlitið var framkvæmt með þeim hætti að Umhverfisstofnun fékk eintök af 22 kynningarvörum frá bönkunum þremur og skimaði fyrir tilteknum áhættuþáttum varðandi efnainnihald í þeim. Skimunin var unnin með aðstoð starfsfólks Tollstjóra og tækjabúnaði í eigu embættisins. Í kjölfar skimunarinnar voru valdar fjórar vörur sem sendar voru til efnagreininga og leiddu þær í ljós að ein varan reyndist innihalda tiltekin hættuleg efni í meiri styrk en leyfilegt er. Þar var um að ræða endurskinsmerki sem í kjölfarið var tekið af markaði og innkallað.


Fjallað var um eftirlitið í frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar í maí 2019. Smelltu hér til að lesa fréttina