Flokkun

Flokkun efna byggist á hættueiginleikum þeirra hvort sem það eru eðliseiginleikar (t.d. eld- og sprengifimi, sýrustig, stöðugleiki) eða eiginleikar sem gera efnin skaðleg heilsu eða umhverfinu.

Um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna gildir reglugerð nr. 415/2014, sem innleiðir reglugerð Evrópusambandsins nr. 1272/2008 (CLP). Í CLP og viðaukum við hana má finna upplýsingar og leiðbeiningar um það hvernig ber að flokka og merkja efni og efnablöndur. Efni má eingöngu setja á markað ef búið er að flokka það samkvæmt reglugerðinni eða staðfesta að efnið sé ekki hættulegt í skilningi hennar.

Flokkun efna og efnablandna samkvæmt CLP

Með tilkomu CLP urðu nokkrar mikilvægar breytingar varðandi flokkun:

 • Ábyrgð með flokkun efna færðist frá yfirvöldum til atvinnulífsins. Flokkun efna kemur nú fram í flokkunar- og merkingaskrá Efnastofnunar Evrópu sem byggir á tilkynningum frá framleiðendum og innflytjendum efna.
 • Flokkun nýrra efna og efnablandna skal byggja á fyrirliggjandi upplýsingum ef kostur er svo að ekki séu framkvæmdar tilraunir á dýrum í óþarfa.
 • Flokkun nær til fleiri eiginleika en áður. Þar ber helst að nefna að lofttegundir undir þrýstingi eru nú sérstakur flokkur.
 • Efnablöndur má flokka með því að nota:
  • Upplýsingar um flokkun innhaldsefna blöndunnar til að reikna út hættuflokkun hennar í samræmi við I. viðauka
  • Gögn tiltæk um prófanir fyrir blönduna sem réttlæta flokkun hennar, sbr. 2.-3. mgr. í 9. gr. CLP
  • Líkindi við aðrar samsvarandi blöndur, sk. brúunarregla (e. bridging principle), sbr. I. viðauka 

Tilkynning í flokkunar- og merkingaskrá

Þeir sem eru ábyrgir fyrir markaðssetningu efna (þ.m.t. efnum í blöndum) eru jafnframt ábyrgir fyrir tilkynningu í flokkunar- og merkingaskrá Efnastofnunar Evrópu (ECHA) en hana má framkvæma beint í gegnum vef ECHA

Þeir sem eiga að tilkynna í flokkunar- og merkingarskrá Efnastofnunar Evrópu eru:

 • Framleiðendur hreinna efna
 • Innflytjendur hreinna efna frá löndum utan EES
 • Framleiðendur efnablandna sem flytja inn hráefni frá löndum utan EES
 • Innflytjendur efnablandna frá löndum utan EES

Samræmd flokkun

Þrátt fyrir að skyldan til að flokka liggi hjá framleiðendum, innflytjendum og eftirnotendum mæla yfirvöld í Evrópu fyrir svokallaðri samræmdi flokkun í tilfellum tiltekinna sérstaklega hættulegra efna. Lögbær yfirvöld aðildarríkjanna, framleiðendur, innflytjendur og eftirnotendur geta sent tillögu að samræmdri flokkun efnis til Efnastofnunar Evrópu (ECHA). Ef tillagan stenst mat viðeigandi aðila og er samþykkt er flokkunin birt í töflu 3 í 3. hluta VI. viðauka við CLP og einnig í flokkunar- og merkingaskrá ECHA. Lesa má nánar um ferlið á vef Efnastofnunar Evrópu.

Athugið að efni skal hættuflokka í samræmi við samræmda flokkun sé hún fyrirliggjandi. Birgir þarf sjálfur að taka afstöðu til flokkunar efnisins hvað varðar hættuflokka sem ekki koma fram í samræmdu flokkuninni.