Flugeldar

Af hverju eru flugeldar slæmir fyrir heilsuna?

Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir og því er mikilvægt að draga úr magni flugelda sem skotið er upp um áramót. Flugeldum fylgir ávallt loftmengun. Mengun frá flugeldum er raunverulegt vandamál hér á landi. Svifryk sem myndast við sprengingar flugelda veldur mestum heilsufarsáhrifum. 

Svifryk getur haft margvísleg áhrif á heilsu manna. Því smærra sem rykið er, því lengra nær það inn öndunarveg og allra smæstu agnirnar fara inn í blóðrásarkerfið. 

Svifryk hefur verið tengt við aukna tíðni lungnasjúkdóma, krabbameina, hjarta- og æðasjúkdóma sem og heildardánatíðni.

Þeir sem eru viðkvæmastir fyrir loftmengun eru aldraðir, börn, og fólk með undirliggjandi öndunarfæra- og hjarta- og æðasjúkdóma. Áhrifin koma fram sem versnandi einkenni sjúkdóma og þannig má sjá aukna tíðni á komum á bráðamóttökur m.a. vegna andnauðar, aukinn fjölda innlagna á sjúkrahús og aukna dánartíðni í kjölfar útsetningar við svifryk. Því má segja að flugeldar skerða lífsgæði margra.

Auk neikvæðra áhrifa svifryks á menn og dýr, geta verið margskonar önnur efni í flugeldum. Þar má nefna þungmálma á borð við blý, kopar og sink. Í skýrslu Umhverfisstofnunar má sjá efnagreiningar sem gerðar voru á svifryki áramótin 2018-2019. 

Umhverfisstofnun hvetur fólk til að vera vel upplýst um áramótin, stilla flugeldanotkun í hóf og vernda þannig viðkvæma hópa. Vert er að hafa í huga að viðkæmir einstaklingar eru mögulega fleiri en áður vegna Covid-19. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á loftgæði.is.

Hvernig ýtir veður undir meiri loftmengun frá flugeldum?

Veður er ráðandi þáttur í hvort mengunin safnist upp eða ekki. Ef veður er stillt og úrkomulaust geta loftgæði orðið mjög lítil.

Margir muna eftir áramótunum 2016-2017 og 2017-2018 þegar slíkt magn af svifryki safnaðist upp yfir höfuðborginni að erfitt var orðið að sjá litadýrðina. 

Í bæði skiptin var úrkomulaust og veðurstilla sem leiddi til þess að allt svifrykið sem myndaðist við sprengingarnar náði að svífa lengi um andrúmsloftið. Þetta leiddi til þess að klukkustundarstyrkur svifryks fór yfir 2000 µg/m3 eftir miðnætti árið 2017 og yfir 3500 µg/m3 árið 2018 en heilsuverndarmörk fyrir hvern sólarhring eru 50 µg/m3. Til viðmiðunar má nefna að ársmeðaltal svifryks á mælistöðinni við Grensásveg er yfirleitt undir 20 µg/m3.

 

 

Mynd 1: Mælingar Dalsmára 2017 til miðs árs 2020, klukkustundar meðaltöl. Toppar vegna svifryks á áramótum skera sig vel út á myndinni.

Af hverju eru flugeldar slæmir fyrir umhverfið?

Í flugeldum geta verið efni sem berast út í umhverfið, safnast þar upp og geta jafnvel haft alvarleg áhrif á heilbrigði dýra efst í fæðukeðju. 

Gott er að spyrja seljendur hvort flugeldarnir standist kröfur um efnainnihald og athuga hvort þeir séu CE merktir, en einungis er leyfilegt að selja CE merkta flugelda á Íslandi.

Hvað efni eru í flugeldum?

Veruleg aukning ýmissa efna í svifryki eru um hver áramót. Efni sem hækka mest eru einkenndandi fyrir flugelda og því ekki frá öðrum uppsprettum s.s. áramótabrennum. Svifrykið er málmríkt, kolefnisríkt, brennisteinsríkt og í því mælast efni eins og bensó(a)pýren í hlutfallslega háum styrk. Fyrir brennistein er t.d. mengunarálagið um áramót gróflega jafngildi eins mánaðar hefðbundins mengunarálags.

Mælingar á fjölhringja kolefnissamböndum og frumefnum í svifryki áramótin 2018-2019 má finna hér: 

Efnagreiningar á svifryki á höfuðborgarsvæðinu áramótin 2018-2019 (pdf)

Hvernig getum við minnkað þörfina fyrir flugelda?

Fyrir mörgum snúast flugeldar um samverustund með okkar nánustu aðstandendum. Með því að skapa nýjar áramótahefðir getum við notið samverustundar með öðrum og minnkað mikilvægi flugelda á áramótunum.

Hvað er hægt að gera í staðinn?

Íslendingar eru ríkir af skemmtilegum áramótahefðum sem er tilvalið að prófa í stað þess að setja alla áherslu á flugeldanotkun. Áramótabrennur, setning áramótaheita og ýmis samskipti manna við álfa eru órjúfanlegur hluti af gamlársdegi margra Íslendinga en nýjar áramótahefðir eru einnig að ryðja sér til rúms.

Einhverjir geta ekki ímyndað sér áramót án flugelda eða vilja skjóta upp flugeldum fyrir krakkana, nágrannana eða aðra. Þá getur verið gott að taka samtalið við heimilismenn til að vera viss um að allir séu á sömu skoðun. Þörfin fyrir flugelda fer minnkandi með nýjum hugsunarhætti. Nágrannar geta talað sig saman til að passa að ekki allir í blokkinni eða húsfélaginu kaupi flugelda. Það getur verið nóg að einn eða tveir kaupi flugelda á hverju ári.

Mynd: Mike Swigunski / Unsplash