Öryggisblöð

Almennt

Kröfur sem gilda um öryggisblöð koma fram í 31. gr. REACH reglugerðarinnar og í II. viðauka í sömu reglugerð. Breytingar voru gerðar á II. viðauka með reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 453/2010 til að samræma kröfurnar við nýjar reglur um flokkun og merkingu (CLP reglugerðin). Þessi breytingarreglugerð hefur tvo viðauka sem báðir innihalda leiðbeiningar um samantekt öryggisblaða og koma í staðinn fyrir II. viðauka REACH. Gildistími I. viðauka var frá 1. desember 2010 - 1. júní 2015 en á því tímabili átti að flokka og merkja hrein efni samkvæmt CLP. Þann 1. júní 2015 tók II. viðauki gildi og nú skal flokka og merkja bæði efni og efnablöndur samkvæmt CLP. Þó er heimilt að halda eldri öryggisblöðum sem voru útbúin skv. II. viðauka reglugerðar ESB nr. 453/2010 til 1. júní 2017 fyrir efnablöndur sem voru merktar, pakkaðar og markaðssettar fyrir 1. júní 2015.

Öryggisblað skal vera á íslensku og afhent á pappírsformi eða rafrænt, án endurgjalds. Afhenda skal öryggisblaðið áður en eða á sama tíma og efnavaran er afhent í fyrsta skipti. Ef um endurtekna pöntun er að ræða þarf ekki að afhenda öryggisblað í hvert skipti, nema breyting hafi orðið á því í millitíðinni.

Skyldur

Hvenær er skylt að láta af hendi öryggisblöð?

Í gr. 31.1 REACH reglugerðarinnar segir:

Birgir efnis eða efnablöndu skal sjá viðtakanda efnisins eða efnablöndunnar fyrir öryggisblaði sem tekið hefur verið saman í samræmi við II. viðauka:

  • a) ef efni eða efnablanda uppfyllir viðmiðanir þannig að það flokkast sem hættulegt í samræmi við tilskipanir 67/548/EBE eða 1999/45/EB eða
  • b) ef efni er þrávirkt, safnast upp í lífverum og er eitrað eða er mjög þrávirkt og safnast í miklum mæli upp í lífverum í samræmi við viðmiðanirnar sem eru settar fram í XVII. viðauka eða
  • c) ef efni er tilgreint í skránni sem tekin er saman í samræmi við 1. mgr. 59. gr., af öðrum ástæðum en þeim sem um getur í a- og b-lið. (Hér er átt við leyfisskyld efni).

Skv. REACH þá er viðtakandi efnis eða efnablöndu skilgreindur sem eftirnotandi eða dreifandi.

  • Eftirnotandi er sá sem notar efni, annað hvort eitt sér eða í efnablöndu, við iðnaðarstarfsemi sína eða faglega starfsemi.
  • Dreifandi er einstaklingur eða lögaðili, þ.m.t. smásali, sem einungis geymir og setur efni á markað, eitt sér eða í efnablöndu, á vegum þriðja aðila.

Þetta þýðir að þegar efni eða efnablanda er seld til aðila sem ætlar að nota hana við iðnaðarstarfsemi/faglega starfsemi og/eða selja hana áfram í smásölu, þá skulu öryggisblöð fylgja með vörunni.

Auk ofangreindra reglna getur viðtakandi efnis í ákveðnum tilfellum beðið um öryggisblöð sbr. gr. 31.3 en þar segir:

Birgirinn skal að beiðni viðtakandans sjá honum fyrir öryggisblaði, sem er tekið saman í samræmi við ákvæði II. viðauka, ef efnablanda uppfyllir ekki viðmiðanir til að flokkast sem hættuleg í samræmi við 5., 6. og 7. gr. tilskipunar 1999/45/EB en inniheldur:

  • a) a.m.k. eitt efni sem skapar hættu fyrir heilbrigði manna eða umhverfið og er eitt sér í styrk sem nemur ≥ 1% m.v. þyngd fyrir efnablöndu, sem er ekki loftkennd, og ≥ 0,2 % m.v. rúmmál fyrir loftkennda efnablöndu eða
  • b) a.m.k. eitt efni sem er þrávirkt, safnast upp í lífverum og er eitrað eða er mjög þrávirkt og safnast í miklum mæli upp í lífverum í samræmi við viðmiðanirnar sem eru settar fram í XIII. viðauka og er eitt sér í styrk sem nemur ≥0,1% m.v. þyngd í efnablöndu, sem er ekki loftkennd, eða hefur af öðrum ástæðum en þeim sem um getur í a-lið verið fært í skrána sem tekin var saman í samræmi við 1. mgr. 59. gr. eða
  • c) efni sem fellur undir viðmiðunarmörk Bandalagsins fyrir váhrif á vinnustöðum.

Þetta þýðir að þegar efnablöndur sem uppfylla ofangreindar kröfur eru seldar til atvinnutengdrar starfsemi, þá skal öryggisblað fylgja með, ef þess er óskað.

Þegar kemur að sölu efna og efnablandna til almennings segir í gr. 31.4:

Ef eftirnotandi eða dreifandi fer ekki fram á það er ekki nauðsynlegt að láta öryggisblað fylgja hættulegum efnum eða efnablöndum,sem eru boðnar eða seldar almenningi, ef þeim fylgja nægilegar upplýsingar til að notendur geti gert nauðsynlegar ráðstafanir að því er varðar heilsuvernd, öryggi og umhverfisvernd.

Hér ættu merkingar og varúðar- og hættusetningar á umbúðum efnavara að duga í flestum tilfellum en til eru dæmi um að útbúnar séu sérstakar leiðbeiningar um örugga notkun.

Váhrifasviðsmyndir

Upplýsingagjöf í aðfangakeðjunni - váhrifasviðsmyndir

Með tilkomu REACH þá gildir nú að ef efni/efnavara eru framleidd eða flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið í meira magni en 10 tonn á ári skal skráningaraðilinn gera efnaöryggisskýrslu en í henni eru skráðar niðurstöður úr sérstöku efnaöryggismati. Styrkur efna í efnablöndu þarf að ná ákveðnu marki til að þetta ákvæði gildi (gr. 14.2). 

Efnaöryggismat felur í sér

a)      mat á hættu fyrir heilbrigði manna,

b)      eðlisefnafræðilegt hættumat,

c)       mat á hættu fyrir umhverfið,

d)      mat á þrávirkni, uppsöfnun í lífverum og eiturhrifum (PBT) efna og

e)      mat á mikilli þrávirkni og mikilli uppsöfnun efna (vPvB) í lífverum.

Ef skráningaraðilinn kemst að því, eftir ofangreint mat, að efnið uppfylli viðmiðanirnar þannig að það flokkist sem hættulegt eða er metið sem PBT-efni eða vPvB-efni þá skal gera mat á áhrifum, þ.m.t. gerð váhrifasviðsmyndar og áhættulýsingu sem nær til allrar tilgreindrar notkunar skráningaraðilans. Eftirnotendur eiga rétt á að upplýsa skráningaraðilann um sína notkun til að fá hana metna inn í váhrifasviðsmyndina. Ef eftirnotandi efnis uppfyllir ekki þau skilyrði sem lýst er í váhrifasviðsmynd efnis/efnablöndu, skal hann taka saman eigin efnaöryggisskýrslu, með ákveðnum undantekningum þó (gr. 37., mgr. 4). Ath. Eftirnotendur eru þeir sem nota efnið/efnablönduna í atvinnuskyni.

Allir aðilar í aðfangakeðjunni sem er skylt að taka saman öryggisskýrslu skulu láta viðeigandi váhrifasviðsmyndir fylgja í viðauka við öryggisblaðið, sem tekur til tilgreindrar notkunar.  Þannig er safnað saman upplýsingum um hugsanlega áhættu efnis/efnablöndu og örugga notkun og hún gerð aðgengileg í aðfangakeðjunni.

Uppfærsla

í gr. 31.9 í REACH segir:

„Birgjar skulu uppfæra öryggisblaðið tafarlaust í eftirfarandi tilvikum:

a) um leið og fyrir liggja nýjar upplýsingar, sem geta haft áhrif á ráðstafanir við áhættustjórnun, eða nýjar upplýsingar um hættu,

b) þegar leyfi hefur verið veitt eða synjað hefur verið um leyfi,

c) þegar takmarkanir hafa verið settar.

Þessi nýja, dagsetta útgáfa upplýsinganna, tilgreind sem “Endurskoðun:  (dags)” skal afhent án þess að gjald komi fyrir, á pappír eða rafrænt, öllum fyrri viðtakendum sem þeir hafa afhent efnið eða efnablönduna næstu 12 mánuði á undan. Skráningarnúmerið skal vera á öllum uppfærslum eftir skráningu.“

Þetta þýðir að birgirinn skal senda uppfært öryggisblað á pappírsformi eða rafrænt til viðtakandans sem, (sbr. skilgreiningu á viðtakanda hér að ofan) ætlar að nota hana við iðnaðarstarfsemi sína eða faglega starfsemi.

Upplýsingar á blöðum

Hvaða upplýsingar þurfa að koma fram á öryggisblöðum?

Eftirfarandi 16 fyrirsagnir skulu vera á öryggisblöðum ásamt undirfyrirsögnunum sem skráðar eru, nema í 3. lið þar sem aðeins þarf að hafa með undirliði 3.1 og 3.2, eftir því sem við á. Nánar upplýsingar um innihald er að finna í kröfum um samantekt öryggisblaða

1. LIÐUR: Auðkenning efnisins eða blöndunnar og félagsins eða fyrirtækisins

1.1.    Vörukenni

1.2.    Viðeigandi og tilgreind notkun efnis eða blöndu og notkun sem ráðið er frá

1.3.    Upplýsingar um birgi öryggisblaðsins

1.4.    Neyðarsímanúmer

2. LIÐUR: Hættugreining

2.1.    Flokkun efnisins eða blöndunnar

2.2.    Merkingaratriði

2.3.    Aðrar hættur

3. LIÐUR: Samsetning innihaldsefna/upplýsingar um innihaldsefni

3.1.    Efni

3.2.    Blöndur

4. LIÐUR: Ráðstafanir í skyndihjálp

4.1.    Lýsing á ráðstöfunum í skyndihjálp

4.2.    Helstu skaðleg einkenni og áhrif, bæði bráð og tafin

4.3.    Upplýsingar um tafarlausa læknisumönnun og sérstaka meðferð sem þörf er á

5. LIÐUR: Ráðstafanir vegna slökkviaðgerða

5.1.    Slökkvibúnaður

5.2.    Sérstakar hættur af völdum efnisins eða blöndunnar

5.3.    Ráðgjöf fyrir slökkviliðsmenn

6. LIÐUR: Ráðstafanir ef efni fer óvart til spillis eða er losað fyrir slysni

6.1.    Öryggisráðstafanir fyrir fólk, hlífðarbúnaður og neyðarráðstafanir

6.2.    Varúðarráðstafanir vegna umhverfisins

6.3.    Aðferðir og efni til afmörkunar og hreinsunar

6.4.    Tilvísun í aðra liði

7. LIÐUR: Meðhöndlun og geymsla

7.1.    Varúðarráðstafanir um örugga meðhöndlun

7.2.    Örugg geymsluskilyrði, þ.m.t. vegna mögulegs ósamrýmanleika.

7.3.    Sértæk, endanleg notkun

8. LIÐUR: Váhrifavarnir/persónuhlífar

8.1.    Takmörkunarfæribreytur

8.2.    Váhrifavarnir

9. LIÐUR: Eðlis- og efnafræðilegir eiginleikar

9.1.    Upplýsingar um eðlis- og efnafræðilega grunneiginleika

9.2.    Aðrar upplýsingar

10. LIÐUR: Stöðugleiki og hvarfgirni

10.1.Hvarfgirni

10.2.Efnafræðilegur stöðugleiki

10.3.Möguleiki á hættulegu efnahvarfi

10.4.Skilyrði sem ber að varast

10.5.Ósamrýmanleg efni

10.6.Hættuleg niðurbrotsefni

11. LIÐUR: Eiturefnafræðilegar upplýsingar

11.1.Upplýsingar um eiturefnafræðileg áhrif

12. LIÐUR: Vistfræðilegar upplýsingar

12.1.Eiturhrif

12.2.Þrávirkni og niðurbrjótanleiki

12.3.Uppsöfnun í lífverum

12.4.Hreyfanleiki í jarðvegi

12.5.Niðurstöður úr mati á PBT- og VPvB-eiginleikum

12.6.Önnur skaðleg áhrif

13. LIÐUR: Förgun

13.1.Aðferðir við meðhöndlun úrgangs

14. LIÐUR: Upplýsingar um flutninga

14.1.UN-númer

14.2.Rétt UN-sendingarheiti

14.3.Hættuflokkur eða –flokkar vegna flutninga

14.4.Pökkunarflokkur

14.5.Umhverfishættur

14.6.Sérstakar varúðarráðstafanir fyrir notanda

14.7.Flutningar búlkafarms skv. II. viðauka við MARPOL-samninginn frá ´73/78 og IBC-kóðanum.

15. LIÐUR: Upplýsingar varðandi regluverk

15.1.Sértæk ákvæði/löggjöf fyrir efnið eða blönduna vegna öryggis, heilbrigðis og umhverfis

15.2.Efnaöryggismat

16. LIÐUR: Aðrar upplýsingar