Greining á söluskrám 2015 fyrir tiltekin varnarefni

Greining á söluskrám fyrir plöntuverndarvörur og nagdýraeitur á árinu 2015

Tilgangur og markmið:

Samkvæmt 24. gr. efnalaga nr. 61/2013 skulu þeir sem setja á markað tiltekin varnarefni, þ.e. plöntuverndarvörur og útrýmingarefni, sem einungis eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni, halda skrá yfir söluna og afhenda Umhverfisstofnun á því formi sem hún tilgreinir. Jafnframt bera þessi aðilar ábyrgð á því að umræddar vörur séu einungis afhentar þeim sem eru með gild notendaleyfi frá Umhverfisstofnun eða ígildi þeirra.

Umfang verkefnisins náði til allra plöntuverndarvara sem einungis eru ætlaðar eru til notkunar í atvinnuskyni og nagdýraeiturs sem eru sömuleiðis einungis til notkunar í atvinnuskyni.

Framkvæmd og helstu niðurstöður: 

Í byrjun október 2016 kallaði Umhverfisstofnun eftir skrám vegna sölu á þessum vörum á árinu 2015, þar sem fram kæmu upplýsingar um vöruheiti, umbúðastærð, fjöldi seldra eininga af hverri umbúðastærð, dagsetning sölu, nafn kaupanda og kennitala, sem og nafn og kennitala handhafa notendaleyfis ef annar en kaupandi. Í úrtaki voru 7 fyrirtæki.

Á árinu 2015 voru seldar 44 mismunandi vörur sem féllu undir umfang eftirlitsins, þar af voru 37 plöntuverndarvörur og 7 vörur til útrýmingar meindýra. Allnokkur misbrestur reyndist vera á því að kaupendur varnarefna væru með notendaleyfi eða sambærileg leyfi í gildi, þannig voru einungis 105 einstaklingar af alls 209 kaupendum þessara vara með leyfi í gildi þegar kaupin áttu sér stað.