Norrænt eftirlitsverkefni um vörur sem innihalda tiltekin PFAS efni

Umhverfisstofnun tók þátt í samnorrænu eftirlitsverkefni sem sneri að því að skoða hvort vörur og efnablöndur sem eru markaðssettar til almennings uppfylli kröfur að því er varðar tilvist PFAS (e. per- and polyfluoroalkyl substances) efna. Kröfurnar eru settar fram í reglugerð um þrávirk lífræn efni sem tekur til skuldbindinga Stokkhólmssamningsins. Markmiðið með verkefninu var að auka skilvirkni eftirlits hvað varðar þennan efnahóp og vekja athygli á takmörkun ákveðinna PFAS efna. Að auki var safnað upplýsingum um tilvist PFAS efna sem ekki eru takmörkuð með efnalöggjöf og útdraganlegra lífrænna flúorefnasambanda (e. extractable organofluorine, EOF) til að styðja við framtíðarþróun löggjafar um PFAS efni.

Skýrslu um verkefnið má nálgast hér en að neðan er samantekt um helstu niðurstöður.

Samantekt

PFAS efni hafa verið mikið notuð vegna þess að þau eru stöðug (óhvarfgjörn) og hrinda frá sér vatni, fitu og óhreinindum. Efnin finnast í margs konar vörum, t.a.m. snyrtivörum, textíl, matvælaumbúðum, útivistarvörum og slökkvitækjafroðu en u.þ.b. 5000 mismunandi PFAS efni eru þekkt. Aðal áhyggjuefni varðandi þessi efni er hversu þolin þau eru gagnvart niðurbroti, en efnin brotna mjög hægt niður í náttúrunni auk þess að safnast fyrir í mönnum og öðrum lífverum þar sem þau geta haft skaðleg áhrif. Einnig er vert að nefna að efnin eiga auðvelt með að ferðast langar vegalengdir, einkum með loftstraumum eða vatni, og hafa fundist m.a. í ósnertri náttúru langt frá uppruna efnanna.

Þau PFAS efni sem eru takmörkuð með reglugerð (ESB) 2019/1021 um þrávirk lífræn efni (e. Persistent Organic Pollutants, POPs) eru PFOA, sölt þess, PFOA-lík efni, PFOS og afleiður þess. Að auki hafa mörg PFAS efni verið skilgreind sem sérlega varasöm efni og eru á kandídatalista reglugerðar (EB) nr. 1907/2006 (REACH). Innan Evrópu er mikill vilji til að rannsaka PFAS efni enn frekar. Um þessar mundir er verið að vinna að takmörkun sem nær yfir PFAS efni með lengri kolefniskeðjur og nokkrar gerðir af PFAS efnum með styttri kolefniskeðjum, t.d. PFHxS og PFHxA. Nokkur aðildarríki ESB eru að vinna saman að því að notkun allra PFAS efna verði takmörkuð með það markmið að fasa þau út að lokum.

Í verkefninu voru valdar vörur til efnagreininga úr vöruflokkum sem talið var líklegt að efnin fyndust í. Valið byggði á reynslu fyrri eftirlitsverkefna og rannsókna á Norðurlöndunum á tilvist efnanna. Þar sem notkun efnanna takmarkast ekki við vörur ætlaðar neytendum var reynt að velja einnig vörur sem ætlaðar eru til atvinnunotkunar. Alls voru 158 vörur skoðaðar – 95 efnavörur og 63 hlutir.

Eftirlitsverkefnið náði yfir eftirfarandi vörutegundir:

 • Gólfmottur,
 • útiföt,
 • skó,
 • bakpoka,
 • tjöld/útivistarvörur,
 • slökkvitæki,
 • vax, olíur og sprey til umönnunar vara.

Niðurstöður efnagreininga voru eftirfarandi:

 • 79 vörur innihéldu PFAS efni
 • 16 vörur stóðust ekki kröfur varðandi PFAS innihald
 • 34 vörur innihéldu PFOA og/eða PFOS en í leyfilegum styrk
 • 29 vörur innihéldu PFAS efni sem ekki eru takmörkuð með reglugerð

Af þeim 16 vörum sem ekki stóðust kröfur um takmörkun á styrk PFAS efna voru 14 skíðaáburðir, einn útivistarjakki (skel) og einn skíðagalli. Smelltu hér ef þú villt kynna þér skýrsluna um verkefnið.

Verkefnið hér á landi

Umhverfisstofnun tók þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd og valdi eftirlitsþega með það í huga að skoða vörur ætlaðar sem áburður á skó og/eða textíl til að hrinda frá vatni og óhreinindum. Sex fyrirtæki voru valin af handahófi:

 • Everest
 • Fjallakofinn
 • GG Sport
 • Kemi
 • Timberland
 • Útilíf

Ein vara var valin úr hverri verslun og send í efnagreiningu. Skimað var fyrir tilvist 22 PFAS efna, þar á meðal PFOS og PFOA. Styrkur allra efnanna reyndist undir magngreiningarmörkum og því var ekki um frávik frá kröfum í reglugerð að ræða.