Merkingar og umbúðir á uppkveikivökvum fyrir grill

Umhverfisstofnun ráðgerir á næstunni að fara í eftirlit með grilluppkveikivökvum sem eru á markaði hér á landi og er það liður í viðleitni stofnunarinnar að hafa eftirlit og auka neytendavernd hvað varðar áhættusamar efnavörur sem almenningur notar. Stofnunin vill af því tilefni vekja athygli á hættueiginleikum þessara vara og þeim reglum sem gilda um merkingar og umbúðir þeirra.

Með vorinu hefst grilltímabilið og þá eykst til muna notkun ákveðinna efnavara sem geta verið hættulegar umhverfi og heilsu. Uppkveikivökvi fyrir grill fellur í þann flokk og getur hann valdið alvarlegum heilsuskaða sé hann ekki rétt meðhöndlaður og því er sérlega mikilvægt að merkingar, leiðbeiningar og umbúðir séu í lagi á þessum vörum. Til að tryggja örugga notkun er því lykilatriði að lesa á umbúðirnar áður en við hefjumst handa til að átta okkur á hættunni sem af þeim getur stafað og hvernig eigi að bregðast við slysum. Athugið að uppkveikivökva á alltaf að geyma á öruggum stað þar sem börn ná ekki til.

Uppkveikivökvar innhalda oftast nær hættuleg efni sem geta valdið alvarlegum heilsuskaða séu þeir ekki meðhöndlaðir rétt og vegna hættunnar sem stafar af þeim ber að merkja þá með viðeigandi hættumerki í samræmi við reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablanda. Þá skulu á umbúðum vera hættusetningar sem lýsa eðli hættunnar og varnaðarsetningar sem leiðbeina um örugga notkun, geymslu og förgun. Hættu- og varnaðarsetningar eiga samkvæmt reglugerðinni að vera staðlaðar og á íslensku. Setningin „Getur verið banvænt við inntöku ef það kemst í öndunarveg“ er dæmi um staðlaða hættusetningu sem líklegt að finna megi á grilluppkveikivökva. Sömuleiðis er það krafa að viðvörunarorð á íslensku komi fram á umbúðunum, annað hvort „Varúð“ eða „Hætta“ og fer það eftir flokkun vörunnar hvort orðið á að nota en hið síðarnefnda lýsir alvarlegri hættueiginleikum.  Umbúðirnar þurfa að vera tryggar og almennt gildir um þessar vörur þær þurfa bæði vera með barnheld öryggislok og áþreifanlega viðvörun, sem er upphleypt merki til að vara blinda og sjónskerta við hættu.

Í fyrirhugðu eftirliti mun Umhverfisstofnun skoða hvort grilluppkveikivökvar sem boðnir eru fram á markaði hér á landi uppfylli skilyrði ofangreindra reglugerða og verður, eftir atvikum, annað hvort farið í eftirlitsferðir beint til birgja eða á útsölustaði, þar sem vörur þeirra eru boðnar fram. Kynntu þér málið nánar á heimasíðu Umhverfisstofnunar: