Menning og saga

Fólk hefur lengi vanið komur sínar á svæðið en elstu rituðu heimildir um Geysi eru frá 13. öld og hefur svæðið lengi vakið áhuga ferða-, fræði- og listamanna. Í gegnum tíðina hefur fólk safnast saman við Geysi til að berja þetta náttúruundur augum en Geysir hefur verið einkennandi fyrir ímynd íslenskrar náttúru um árabil. Geysir kemur meðal annars fyrir í nafntogaðri Ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar en þeir rituðu svo frá heimsókn sinni árið 1750: ...aðaltilgangur (...) var að skoða hinn landskunna goshver, sem gýs upp úr kletti einum í Haukadal. Hver þessi heitir Geysir. Nafnið merkir ,,einhvern, sem í reiði eða æði þýtur af stað með ofsahraða eða sýnir óvenjulegan ofsa í framferði sínu.” 

Árið 1894 keypti breskur maður hluta hverasvæðisins og rukkaði fyrir aðgang að því. Síðar gaf hann vini sínum svæðið en árið 1935 keypti Sigurður Jónasson landið aftur og gaf það íslensku þjóðinni. Þar til árið 2016 var hverasvæðið í óskiptri sameign ríkisins og annarra landeigenda. Árið 2016 gerðu íslenska ríkið og aðrir eigendur samning um kaup ríkisins á öllu landinu og er ríkið þar með orðinn eigandi allrar jarðarinnar Laugar og hverasvæðisins. Í kjölfarið á undirritun kaupsamningsins hófst undirbúningur að friðlýsingu svæðisins að nýju sem lauk svo með friðlýsingunni þann 17. júní 2020.

Innan verndarsvæðisins eru menningarminjar sem vitna um mannvistir fyrr á tímum. Þar eru meðal annars ,,konungssteinar” sem eru minjar um heimsóknir þriggja konunga danska ríkisins til Íslands. Þar af var konungsheimsóknin 1907 líklega frægust þegar Friðrik VIII kom til landsins en Geysir var hluti af Konungsveginum sem lagður var af því tilefni. Hinir konungarnir voru Kristjáns IX 1874 og Kristján X 1921.