Um auglýsingar plöntuverndarvara gilda ákvæði 66. gr. í reglugerð (EB) nr. 1107/2009 um setningu plöntuverndarvara á markað, sem innleidd er með reglugerð nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur. Þar segir m.a.:
Hverri auglýsingu fyrir plöntuverndarvöru skulu fylgja setningarnar:
- Sýnið aðgát við notkun plöntuverndarvara.
- Lesið ávallt upplýsingar á merkimiða og vöruupplýsingar áður en varan er notuð.
Þessar setningar skulu vera auðlæsilegar og greina sig frá öðrum hlutum auglýsingarinnar. Heimilt er að nota viðeigandi vöruflokk í stað orðsins „plöntuverndarvara“, s.s. sveppaeyðir, skordýraeyðir eða illgresiseyðir.
Auglýsingin skal ekki innihalda upplýsingar sem gætu valdið misskilningi um hugsanlega áhættu fyrir heilbrigði manna, dýra eða umhverfið eins og t.d. „áhættulítið“, „ekki eitrað“ eða „skaðlaust“.
allar yfirlýsingar sem notaðar eru í auglýsingum skulu vera réttlætanlegar þ.e. ekki má setja fram fullyrðingar um vöruna, t.d. um virkni hennar, nema þær séu sannar.
Auglýsingar skulu ekki innihalda neina sjónræna framsetningu á athöfnum sem kunna að vera hættulegar t.d. blöndun eða notkun án hlífðarfatnaðar, notkun nálægt mat, notkun barna eða nálægt börnum.
Þegar notendaleyfisskyld vara er boðin fram í vefsölu, ber sá sem setur hana á markað á þann hátt ábyrgð á því að einungis handhafa gilds notendaleyfis sé afhent umrædd vara, sbr. 24. efnalaga og 6. gr. reglugerðar nr. 677/2021 um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna.