Þjóðgarður á sunnanverðum Vestfjörðum

Í september 2019 færði RARIK ríkinu jörðina Dynjanda að gjöf. Við undirritun samkomulags vegna gjafarinnar staðfestu stjórnvöld að stefnt væri að frekari friðlýsingu jarðarinnar og vatnasviðs fossins á Dynjandisheiði.

Í byrjun ársins 2020 hófst vinna með Vesturbyggð, Ísafjarðarbæ og Umhverfisstofnun  þar sem fyrirhugað var að vinna að mögulegri stækkun á náttúruvættinu Dynjanda og friðlandinu í Vatnsfirði sem er í landi Brjánslækjar. Sú vinna hófst í kjölfar gjafar RARIK. Fljótlega komu fram hugmyndir um að tengja verndarsvæðin saman í eitt stærra friðlýst svæði vegna náttúru- sögu og menningarverðmæta, sem eru alltumlykjandi á þessu svæði. Í kjölfarið var ákveðið að stofna stærri samstarfshóp og bættust fulltrúar forsætisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Landgræðslusjóðs í hópinn.

 Á meðfylgjandi korti má sjá svæðið sem um ræðir. Þar eru fyrir friðlýstu svæðin Vatnsfjörður, Dynjandi og Surtarbrandsgil, ríkisjarðirnar Brjánslækur, Sperðlahlíð, Dynjandi og Hrafnseyri og einnig er þar jörðin Langibotn sem er í eigu Landgræðslusjóðs.