Upplýsingastefna

Photo by William Iven on Unsplash

Við viljum vera leiðandi í opinberri umræðu um umhverfismál. Í því felst að koma á framfæri upplýsingum um stöðu mála og taka fagnandi allri umræðu um okkar verkefni. Við forðumst aldrei opinbera umræðu og veitum alltaf bestu upplýsingar. Við höfum það að leiðarljósi að miðla meira heldur en minna og leggjum okkur fram um að finna upplýsingar fyrir þá sem óska eftir þeim (meðal svartími almennra fyrirspurna er innan við tveir dagar).

Upplýsingar skipta máli og eru mikilvægar þegar teknar eru ákvarðanir um umhverfismál. Við viljum áfram vera leiðandi í Evrópu í upplýsingamiðlun um mengandi starfsemi og viljum ná sama árangri í öllum okkar málaflokkum. Það skiptir máli að upplýsingar séu á mannamáli og aðgengilegar í gegnum vef

Við veitum fjölmiðlum forgangsþjónustu og geta þeir náð sambandi við okkur hvenær sem er. Sé það mögulegt svörum við þeim alltaf samdægurs. Upplýsingum um neikvæða stöðu mála, s.s. mengun eða náttúruspjöll er komið á framfæri við fyrsta tækifæri (innbyggt í gæðakerfi okkar). 

Ábyrg og örugg varsla gagna er mikilvæg sem og að upplýsingar séu byggðar á traustum og áreiðanlegum gögnum. 

Við nýtum þau tæki og tól sem gera okkur kleift að miðla upplýsingum með einföldum og skýrum hætti, s.s. samfélagsmiðla. Aðgengi allra hópa samfélagsins að upplýsingum er mikilvægt og því fylgjum við eftir þeim kröfum sem gerðar eru og göngum lengra ef við getum. 

Við trúum á samráð og samvinnu. Ábendingar almennings eru gögn sem nýtast við ákvarðanir. Opnir fundir eru haldnir í aðdraganda stærri ákvarðana og vegna þeirra mála sem sérstakur áhugi er á. Fólki gefst færi á að fylgjast með og koma á framfæri athugasemdum. Við fundum reglulega með þeim sem við þjónustum.