Kolefnismarkaður

Vettvangur viðskipta með losunarheimildir er oftast nefndur kolefnismarkaður (carbon market) og viðskipti á honum fara fram bæði í kauphöllum sem og utan skipulagðra markaða (over-the-counter trade). Einstaklingum sem og öðrum aðilum sem ekki falla beint undir lög um viðskiptakerfi með losunarheimildir er einnig heimilt að stunda viðskipti á þessum markaði.  Tilgangur slíkra viðskipta er margvíslegur en t.a.m. er hægt að kaupa heimildir og óska þess að þeim verði eytt. Eins og á við um aðra markaði ræðst verð á heimildum af lögmáli um framboð og eftirspurn og því hefur verð losunarheimilda farið ört hækkandi á undanförnum misserum, þar sem færri slíkar heimildir eru nú í boði.

Í viðskiptakerfi ESB eru það svokallaðar Evrópusambandsheimildir (European Union Allowances, EUA) sem er aðallega verslað með. EUA einingarnar, sem er stærsti hluti þeirra eininga sem þátttakendur í viðskiptakerfinu nota koma frá Evrópusambandinu. Stór hluti þessara eininga er boðinn upp á uppboðsvettvangi, en hluta eininganna er úthlutað endurgjaldslaust til flugrekanda og rekstraraðila. Ágóði af sölu losunarheimilda á uppboði fer til ríkjanna í verkefni tengd loftslags og orkumálum, með það að markmiði að draga úr losun.