Teigarhorn

Teigarhorn var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 og sú friðlýsing endurnýjuð 15. apríl 2013 en svæðið einn þekktasti fundarstaður geislasteina (zeólíta) í heimi. Geislasteinarnir eru í klettum og sjávarhömrum á Teigarhorni og veðrast fram öðru hverju. Óviðkomandi er óheimilt að hrófla við jarðmyndunum. Teigarhorn er þekktast fyrir geislasteinategundirnar skólesít, stilbít, epistilbít, analsím og heulandít. Markmið friðlýsingarinnar eða varðveita og viðhalda náttúrulegu ástandi svæðisins með tilliti til þeirra jarðlaga sem eru ríka af geislasteinum.

Jörðin Teigarhorn hlaut einnig friðlýsingu 15. apríl 2013 sem fólkvangur. Jörðin Teigarhorn er þekkt fyrir jarðmyndanir og atvinnu- og menningarsögu. Innan marka jarðarinnar er Weywadthús sem byggt var af Níels P.E.Weywadt sem var faktor í verslun Örums og Wulff á Djúpavogi. Á Teigarhorni var starfrækt ljósmyndastofa Nicoline Weywadt sem var fyrst kvenna til að nema ljósmyndun á Íslandi, en hún lauk námi frá Danmörku árið 1872. Einnig er innan marka fólkvangsins náttúruvættið á Teigarhorni sem friðlýst er vegna geislasteina (Zeólíta) sem þar eru. Markmið með friðlýsingu jarðarinnar er að tryggja útivistarsvæði í fögru umhverfi þar sem gestum gefst tækifæri á að kynnast sérstakri náttúru svæðisins og sögu jarðarinnar Teigarhorns.

Fólkvangurinn er 2010 ha að stærð.

Menningarminjar 

Í landi Teigarhorns eru margar menningarminjar sem vitna til um búskaparhætti á jörðinni. Fyrst ber að nefna gamla íbúðarhúsið, Weywadthús, sem byggt var á árunum 1880-1882 af Lúðvík Jóni Jónssyni snikkara fyrir Niels Peder Weywadt, verslunarstjóra Örum og Wulff verslunarinnar við Djúpavog. Dóttir hans, Nicole Marie Elise Weywadt, lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn fyrst íslenskra kvenna, og rak ljósmyndastofu í viðbyggingu við húsið. Í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni Íslands eru varðveittar ljósmyndir hennar auk ýmiss búnaðar til ljósmyndunar.  

Weywadthús er friðlýst ásamt upphaflegu innbúi samkvæmt þjóðminjalögum. Húsið er afar veglegt miðað við aðrar byggingar sem reistar voru hér á landi á svipuðum tíma. Sérstaða hússins, sem er undir dönskum áhrifum, byggir meðal annars á því að útveggir og þak var upphaflega klætt pappa, en slíkt var afar fátítt hér á landi. Undir húsinu er steinhlaðinn kjallari, portbyggð hæð ofan á jarðhæðinni og geymsluloft í risi. Grunnflötur hússins er um 65 fermetrar. Þjóðminjasafn Íslands tók við vörslu hússins árið 1992, en búið var í húsinu allt til ársins 1988, eða í rúm 100 ár.  

Á Teigarhorni hafa verið stundaðar veðurathuganir með skipulögðum hætti frá árinu 1881 og skipar staðurinn mikilvægan sess í sögu veðurathugana á Íslandi. Þar mældist hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi þann 22. júní 1939, 30,5°C.  

Aðrar minjar um búskaparhætti í landi Teigarhorns tengjast bæði sjósókn og hefðbundnum landbúnaði. Gerð hefur verið skrá yfir þessar minjar en formleg fornleifaskrá hefur ekki verið gerð. sem dæmi má nefna rústir gamla bæjarins á Teigarhorni, gamalt fiskbyrgi, hringlaga hlaðinn stekk fyrir sauðfé, hleðslur kornmyllu, skrautjurtagarðinn Kerlingastaði, rústir gamalla gripahúsa og hlaðna garða. Örnefnaskrá hefur verið gerð fyrir Teigarhorn en hún hefur ekki verið færð inn í kortagrunn.  

Hvað er áhugavert? 

Teigarhorn er við Berufjörð. Sé komið að norðan er svæðið um það bil 3 km áður en komið er að afleggjara að Djúpavogi. Bílastæði fyrir gesti svæðisins eru við íbúðarhús, en einnig er útskot af veginum í Eyfreyjunesvík, rétt fyrir utan friðlýsta svæðið þegar komið er fram hjá bænum þar sem útsýni er yfir svæðið.  

Á Teigarhorni er sýningarskáli sem hýsir sýningu geislasteina frá svæðinu sem opin er fyrir gesti svæðisins. Í sýningarskálanum er einnig salernisaðstaða. Á jörðinni er dúnkofi þar sem landvörður hefur reglulega fræðslu um æðarfugl og dúntekju yfir sumartímann.  

Göngustígar hafa verið merktir á Teigarhorni og má sjá þær á göngustígakorti Þá er einnig þekkt gönguleið á Búlandstind sem fjallað hefur verið um í gönguleiðabókum, en sú leið er ekki stikuð.  

Umgengnisreglur 

  • Almenningi er heimil för um svæðið, enda sé góðrar umgengni gætt.  
  • Hundar skulu vera í ól, að undanskildum þarfahundum.  
  • Óheimilt er að hafa næturstað innan svæðisins.  
  • Akstur utan vega er óheimill. 
  • Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir og menningarminjar á svæðinu.  
  • Óheimilt er að fjarlægja geislasteina út af svæðinu nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar.  
  • Beit er aðeins heimil á afgirtum, ræktuðum túnum og á Búlandsdal.  
  • Efnistaka úr árfarvegi Búlandsár er óheimil.  
  • Ræktun og dreifing framandi plöntutegunda er óheimil innan fólkvangsins.  
  • Hreindýra- og rjúpnaveiðar eru aðeins heimilar á Búlandsdal. Notkun farartækja við veiðar innan svæðisins er óheimil.  
  • Öll notkun skotvopna skal tilkynnt til umsjónaraðila svæðisins.  
  • Umferð vélknúinna ökutækja í náttúruvættinu er óheimil.  

Stjórnsýsla – rekstur/stjórnun 

Hluti jarðarinnar Teigarhorns var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Friðlýsingin var endurskoðuð árið 2013 ásamt því að friðlýsing fólkvangsins Teigarhorns, sem nær yfir alla jörðina á Teigarhorni, var undirrituð.  

Umhverfisstofnun hefur almennt umsjón með friðlýstum svæðum, en sveitarfélaginu Djúpavogshreppi var falin dagleg umsjón og rekstur svæðanna á Teigarhorni með samningi árið 2013.  

Náttúruvættið geislasteinar í landi Teigarhorns er á Áfangastaðir í hættu