Sólarvörn

Blessuð sólin gleður en því miður geta geislar hennar valdið húðkrabbameini og því er mikilvægt að verja húðina. Það er hægt með því að hylja húðina, halda sig í skugga eða nota sólarvörn. Ber að hafa í huga að áhrif sólar magnast við endurkast geislanna frá snjó, sjó og vötnum. Ýmsar tegundir og gerðir af sólarvarnarkremum finnast á markaði og geta sum innihaldsefnin verið skaðleg heilsu og umhverfi. 

Sólarvarnarstuðull (oft skammstafaður SPF fyrir Sun Protection Factor) segir til um hve vel sólarvörnin hindrar útfjólubláa geisla sólarinnar (UVA og UVB) en það eru þeir geislar sem eru skaðlegir húðinni. Því hærri SPF tala, því betri vörn og er nauðsynlegt að velja sólvörn sem ver húðina gegn bæði UVB og UVA geislum. Áður var talið að UVA geislar væru skaðminni en UVB en rannsóknir nú benda til þess að UVA geislar séu ekki síður hættulegir en UVB. Ástæðan er sú að UVA geislar komast dýpra inn í húðina en UVB geislar og geta þannig haft víðtækari áhrif, meðal annars á frumur ónæmiskerfisins (heimild: Vísindavefurinn). Einnig er mikilvægt að hafa í huga að engin sólvörn ver húðina 100% gegn útfjólubláum geislum sólar. 

Athugið að ætíð er betra að nota sólarvörn sem inniheldur einhver óæskileg efni heldur en að láta húðina brenna! Ef eina sólarvörnin við hendina er þannig þá skaltu nota hana en fjárfesta síðan í nýrri sem uppfyllir neðangreind skilyrði við fyrsta tækifæri. 

  • Veldu Svansmerkta vöru ef hún er í boði. Svansmerkt sólarvörn tekur tillit til heilsu og umhverfis því hún inniheldur sem minnst af skaðlegum efnum og er án ofnæmisvaldandi (s.s. ilmefni) og hormónaraskandi efna (s.s. paraben). Gættu þess að snyrtivörur sem þú kaupir innihaldi ekki bönnuð paraben en þau eru ísóprópýl-, ísóbútýl-, fenýl-, bensýl- og pentýlparaben
  • Veldu sólarvörn með sólarvarnarstuðli 15 (SPF 15) eða hærra sem ver húðina gegn bæði UVA og UVB geislum sólar. Börn ættu að nota sólvörn með sólvarnarstuðli 30 (SPF 30) eða hærri. 
  • Taka skal fullyrðingum um að sólvarnir séu vatnsheldar með fyrirvara og bera á sig sólvörn aftur eftir böðun. Prófun í Danmörku á 6 gerðum sólvarna, með SPF á bilinu 30-50 og vatnsheldar samkvæmt upplýsingum á umbúðum, sýndu að 5 þeirra reyndust ekki að fullu vatnsheldar. Eftir eina ferð í vatn minnkaði vatnsheldnin niður fyrir 50% og SPF stuðullinn um 70-85%. Ein þessara sólvarna reyndist vera vatnsheld en í prófuninni kom í ljós að hún hafði lægri sólvarnarstuðul (SPF) en stendur á umbúðum hennar og inniheldur fleiri óæskileg efni en hinar sólvarnirnar (heimild: tímaritið Forbrugerrådet Tænk (152), júni 2014).
  • Veldu sólarvörn án ilmefna en þau geta valdið ofnæmi. Í innihaldslista vörunnar kallast ilmefni „parfume”, „parfum” eða „aroma”.
  • Veldu sólarvörn án rotvarnarefnanna parabena sem hafa sýnt hormónaraskandi áhrif í dýrum. 
  • Veldu sólarvörn án UV geislavarnarefnisins 4-Methylbenzylidene camphor (4-MBC) sem einnig hefur sýnt hormónaraskandi áhrif í dýrum. 
  • Berðu sólvörnina á þig áður en farið er út í sól svo að kremið nái að fara inn í húðina. 
  • Notaðu það magn sólvarnar í hvert skipti sem ráðlagt er á umbúðunum. Annars er hætta á að sólvarnarstuðullinn lækki og vörnin verði minni en kemur fram á umbúðunum.