Grótta

Grótta var fyrst friðlýst sem friðland árið 1974 og var friðlýsingin endurskoðuð 1984 á grundvelli eldri laga um náttúruvernd.

Samstarfshópur, skipaður fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Seltjarnarnesbæ, Minjastofnun Íslands og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, vinnur að endurskoðun friðlýsingar Gróttu ásamt því að kanna kosti og galla sem gætu falist í stækkun friðlandsins.

Grótta er landföst, gróskumikil eyja utan við vestanvert Seltjarnarnes. Verndargildi friðlandsins í Gróttu felst í fjölskrúðugu fuglalífi árið um kring og mikilvægi þess sem varpsvæðis á sumrin. Þar ber helst að nefna hundruði kríupara sem verpa í og við eyjuna en kría er ábyrgðartegund og alfriðuð. Auk kríunnar verpa einnig í eyjunni margar aðrar fuglategundir svo sem æðarfugl, grágæs, tjaldur, sandlóa, stelkur og maríuerla. Á fartíma er Grótta algengur viðkomustaður stórra hópa fargesta sem dvelja þar til lengri eða skemmri tíma. Þar á meðal eru t.d. rauðbrystingur og sanderla. 

Mikið er af lífríkum sjávartjörnum og fjörum við Gróttu og á nærliggjandi svæðum og er þar helst að nefna Seltjörn sem er vík fyrir opnu hafi á milli Suðurness og Gróttu. Seltjörn er mikilvæg fæðustöð fyrir strand- og sjófugla vegna lífríkrar sandfjöru og grunnsævis. Svæðið er hluti af svæðinu Álftanes – Skerjafjörður sem er á náttúruverndaráætlun 2004-2008. Svæðið er einnig að hluta á náttúruminjaskrá og í tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands til framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár. 

Staða málsins
Samstarfshópur verkefnisins vinnur nú að tillögu að endurskoðaðri friðlýsingu svæðisins sem fer í 6 vikna opið kynningarferli þegar hún liggur fyrir skv. 39. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.