ETS2

ETS 2, er nýtt viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir vegna losunar frá byggingum (vegna húshitunar) vegasamgöngum og viðbótargeirum. Þetta nýja kerfi er sett upp samhliða hinu hefðbundna ETS kerfi með tilskipun 2023/959, sem breytti tilskipun ESB 2003/87. Þessar breytingar voru teknar upp í EES samninginn þann 8. desember 2023 með ákvörðun Sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 335/2023.

Eins og staðan er í dag hefur ETS2 kerfið í heild ekki verið innleitt í íslenskan rétt, að undanskilinni skyldu eftirlitsskyldra aðila til að vakta losuna sína á árinu 2024 og skila um hana skýrslu til Umhverfisstofnunar eigi síðar en 30. apríl 2025, sbr. lög 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. 

Kerfið gengur út á það að aðilar sem að stunda ákveða starfsemi greiði fyrir losun sína á gróðurhúsalofttegundum í formi uppgjörs á losunarheimildum. Eftirlitsskyldir aðilar þurfa því að kaupa losunarheimildir á markaði og standa þannig skil á heimildum í samræmi við losun sína. 

Losun frá ETS 2 kerfinu er færð í losunarbókhald Íslands og fellur undir samfélagslosun, ólíkt losun frá ETS 1 kerfinu. Umhverfisstofnun er lögbært stjórnvald á Íslandi vegna ETS 2 kerfisins.  

Hverjir falla undir kerfið?

Þeir sem falla undir ETS 2 kerfið á Íslandi eru aðilar sem að afhenda eldsneyti til notkunar, sem er notað til brennslu í geirum bygginga, vegasamgangna og viðbótargeira. Þetta er svokallaðir „eftirlitsskyldir aðilar“. 


Upplýsingar og gögn fyrir eftirlitsskylda aðila

Skýrslu um losun sem á sér stað árið 2024 skal skilað til Umhverfisstofnunar eigi síðar en 30. Apríl 2025.  

Frekari leiðbeiningar fyrir eftirlitsskilda aðila er að finna í leiðbeiningaskjali framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um vöktun og skýrslugjöf í ETS2.    

Frekari kröfur um vöktun og kröfur um losunarleyfi í ETS 2 hafa ekki verið teknar upp í íslensk lög en það gæti þó orðið á árinu 2024. Fyrir frekari upplýsingar bendir Umhverfisstofnun eftirlitsskyldum aðilum á að hafa samband við stofnunina á ets-2@ust.is.

Bæði vöktunaráætlunum og losunarskýrslum skal skilað til Umhverfisstofnunar í gegnum sérstaka skilagátt, þar eru upplýsingar færðar beint inn í gagnagrunninn. Eftirlitsskyldir aðilar skulu hafa samband við Umhverfisstofnun til að fá aðgang að þeirri gátt.  

Hér má þó finna sniðmát fyrir vöktunaráætlun og losunarskýrslu, sem hægt er að skoða: 

Sniðmát fyrir vöktunaráætlun 

Sniðmát fyrir losunarskýrslu 

Efni inn á heimasíðu Umhverfisstofnunar verður uppfært eftir frekari innleiðingu á ETS2 kerfinu í íslenska löggjöf. Frekari upplýsingar um ETS2 og hvernig kerfið hefur verið innleitt í Evrópusambandinu má finna hér

Fyrir frekari upplýsingar um ETS2 er hægt að senda póst á Umhverfisstofnun, ets-2@umhverfisstofnun.is.