Kaldárhraun og Gjárnar

Fulltrúar Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarbæjar hafa unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Kaldárhraun og Gjárnar en svæðið var friðlýst árið 2009 sem náttúruvætti.

Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhrauns-myndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli. Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.

Samkvæmt 81. gr. laga nr. 60/2013  um náttúruvernd er eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar að hafa umsjón með gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði. Í þeim er lögð fram stefnumótun til næstu ára ásamt aðgerðum til að viðhalda verndargildi svæðisins.

Við vinnslu áætlunarinnar var l
ögð áhersla á opið og gagnsætt ferli. Drög að áætlunni fóru í sex vikna opið kynningarferli í október 2023 og var frestur til að skila athugasemdum til og með 30. nóvember 2023.

Frekari upplýsingar veitir René Biasone Rene.Biasone@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar var vísað til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til staðfestingar þann 24. janúar 2024.