Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Bráðabirgðatölur um losun gróðurhúsalofttegunda 2024

Hér má finna umfjöllun um nýjar bráðabirgðatölur Umhverfis- og orkustofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi til og með ársins 2024. Þessum gögnum var skilað til ESB í janúar 2026 í samræmi við þær ESB reglugerðir sem gilda um losunarbókhald Íslands. Bráðabirgðatölur Umhverfis- og orkustofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hafa sögulega gefið góða vísbendingu um hvernig losunin er að þróast. Tölurnar gætu tekið einhverjum breytingum fram að lokaskilum vor 2026.

Einnig er hægt að hlaða niður skjali með ítarlegri gögnum og gröfum

ATH: Losunartölur í flokki landnotkunar lágu ekki fyrir við gagnabirtingu Umhverfis- og orkustofnunar í janúar 2026. Tölurnar verða birtar við næstu gagnabirtingu, sem er áætluð vorið 2026.

Losun Íslands án landnotkunar

Losun Íslands án losunar frá landnotkun árið 2024 nam 4,8 milljónum tonna CO2-íg. Það er um 2,9% aukning frá árinu 2023 þegar losunin var 4,7 milljón tonn CO2-íg. Ef miðað er við losun árið 2005 hefur losun Íslands án landnotkunar aukist um 17% fram til ársins 2024. Losun Íslands án landnotkunar 2005 til 2055, skipt eftir skuldbindingum, má sjá á mynd 1.

 

 Mynd 1: Losun Íslands án landnotkunar 2005 til 2055, skipt eftir skuldbindingum. Söguleg losun til og með 2024 og framreiknuð frá og með 2025.

 

Mynd 2: Helstu breytingar í samfélagslosun Íslands milli áranna 2023 og 2024.


 

 Mynd 3: Skipting samfélagslosunar árið 2024 í undirflokka. 

Samfélagslosun Íslands

Samfélagslosun Íslands (ESR) árið 2024 nam 2,9 milljónum tonna CO2-ígilda (CO2-íg.). Það er um 2,1% aukning frá árinu 2023 þegar losunin var 2,8 milljón tonn CO2-íg. 

Þessa breytingu má helst rekja til aukningar í losun jarðvarmavirkjana og meiri eldsneytisnotkunar fiskiskipa, fiskimjölsverksmiðja, og til raforkuframleiðslu. Losun minnkaði þó á sama tíma í nokkrum undirflokkum sem falla undir samfélagslosun meðal annars vegna minni eldsneytisnotkunar í vegasamgöngum, minni losunar vegna kælimiðla, minni urðunar úrgangs og fækkunar sauðfjár.

Hér að neðan má sjá hvaða undirflokkar sem falla undir samfélagslosun breyttust mest milli áranna 2023 og 2024 (mynd 2) og hvernig hlutföll undirflokkana skiptast árið 2024 (mynd 3).

Áætluð skuldbinding gagnvart Evrópusambandinu um samdrátt í samfélagslosun er 41% árið 2030 miðað við árið 2005. Samhliða þeirri skuldbindingu hefur Ísland sett fram landsákvarðað framlag (NDC) undir Parísarsamningnum, þar sem stefnt er að 50%–55% samdrætti í samfélagslosun árið 2035 miðað við 2005. Samdráttur frá árinu 2005 er 6,8% árið 2024.

Samfélagslosun Íslands frá árinu 2005 má sjá á mynd 4 í samhengi við væntanlegar skuldbindingar og markmið. Nánar má lesa um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum hér.

 

Mynd 4: Samfélagslosun Íslands 2005 til 2024, framreiknuð losun samkvæmt sviðsmynd með núgildandi aðgerðum til 2035 ásamt væntanlegum skuldbindingum um 41% samdrátt árið 2030 og markmið um 50%-55% samdrátt árið 2035 miðað við 2005.


Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS)

Losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfi) er frá staðbundnum iðnaði á Íslandi, flugi frá flugrekendum í umsjón Íslands og sjóflutningum frá skipafélögum í umsjón Íslands.

Losun frá staðbundnum iðnaði var 1,9 milljón tonn CO2-íg. árið 2024. Það er um 4,2% aukning frá árinu 2023 þegar losunin var 1,8 milljón tonn CO2-íg. Þessa breytingu má helst rekja til aukningar í kísil- og kísilmálmframleiðslu. Losun vegna álframleiðslu dróst saman þó á sama tíma.

Losun frá flugi sem fellur undir ETS-kerfið var 636 þúsund tonn CO2-íg. árið 2024. Það er um 3,2% aukning frá árinu 2023 þegar losunin var 610 þúsund tonn CO2-íg. Þessa breytingu má rekja til aukningar í losun hjá flugfélögum. Á móti kom minnkuð losun vegna þess að eitt flugfélag hætti starfsemi.

Losun frá sjóflutningum sem falla undir ETS-kerfið var 99 þúsund tonn CO2-íg. árið 2024. Sjóflutningar féllu í fyrsta skipti undir ETS-kerfið árið 2024 á Íslandi.

Helstu breytingar milli áranna 2023 og 2024 í losun innan ETS-kerfisins má sjá á Mynd 5.

Nánar má lesa um ETS-kerfi hér.


 Mynd 5: Helstu breytingar í losun á Íslandi sem fellur ETS-kerfið milli áranna 2023 og 2024. 

 

Bráðabirgðatölur og umbætur

Bráðabirgðatölur Umhverfis- og orkustofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sem skilað er til ESB í júlí ár hvert hafa sögulega gefið góða vísbendingu um hvernig losunin er að þróast. Tölurnar gætu tekið einhverjum breytingum fram að lokaskilum í apríl 2026.

Sífellt er unnið að endurbótum á losunarbókhaldi Íslands til að auka gæði og áreiðanleika gagnanna og einnig er bókhaldið rýnt reglulega af sérfræðingum ESB og UNFCCC. Þetta gerir það að verkum að reglulega eru gerðar breytingar á losunartölum með það að markmiði að auka nákvæmni bókhaldsins.