Stök frétt

Mynd: Hábrún hf.

Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu starfsleyfis, sbr. umsókn rekstraraðila um starfsleyfi og fullnægjandi mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, með þeim skilyrðum og takmörkunum sem koma fram í starfsleyfinu. Unnið hefur verið með Matvælastofnun að samræmingu við leyfisútgáfu rekstrarleyfis, en leyfin eru afhent rekstraraðila samtímis.

Á tímabilinu 26. júlí til 24. ágúst 2019 auglýsti Umhverfisstofnun opinberlega tillögu að starfsleyfi, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, fyrir framleiðslu á allt að 700 tonnum á ári. Auglýsingin var birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar þann 26. júlí sl. ásamt gögnum sem lágu til grundvallar tillögunni. Tillagan var einnig send á viðkomandi sveitarfélög, heilbrigðisnefnd og hagsmunaaðila þann 26. júlí sl.


Um er að ræða sjókvíaeldi í Skutulsfirði í Ísafjarðardjúpi. Umfang starfseminnar er að hámarki 700 tonna lífmassi og árleg framleiðsla. Nánar er heimilt að framleiða á ári 650 tonn af regnbogasilungi og 50 tonn af þorski og hámarkslífmassa á hverjum tíma. 

Meðfylgjandi umsókn félagsins Hábrún hf. er frá 20. febrúar 2017. Sú umsókn er fyrir 1.000 tonna eldi sem var ákvörðuð matsskyld framkvæmd af Skipulagsstofnun þann 24. október 2017. Þá var umfang eldisins minnkað niður í 700 tonn/ári (/hámarkslífmassi á hverjum tíma) og var sú framkvæmd ekki matsskyld skv. ákvörðun Skipulagsstofnunar þann 11. apríl 2018 (sjá í fylgiskjölum). Umhverfisstofnun féllst á að vinna tillögu út frá sömu umsókn Hábrúnar hf. að fengnum upplýsingum um minnkað umfang úr 1.000 tonnum í 700 tonn/ári. 

Unnið var með Matvælastofnun að samræmingu við leyfisútgáfu rekstrarleyfis, en leyfin eru afhent rekstraraðila samtímis skv. 3. mgr. 4. gr. b. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Nánari upplýsingar um mengunarvarnir má sjá í starfsleyfi og nánari upplýsingar um vinnslu starfsleyfis má finna í fylgiskjali með starfsleyfi.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Tengd skjöl:
Ákvörðun um útgáfu 
Starfsleyfi
Greinargerð matsskyldufyrirspurnar (tilkynningarskýrsla)
Viðbótargögn um valkosti
Ákvörðun Skipulagsstofnunar
Vöktunaráætlun