Stök frétt

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í gær í Árnesi friðlýsingu hluta Þjórsárdals sem landslagsverndarsvæðis. Innan svæðisins eru þrjú svæði sem eru friðlýst sem náttúruvætti, Gjáin, Háifoss og Granni og Hjálparfoss. Er þetta fyrsta friðlýsing svæðis í friðlýsingarflokkinum landslagsverndarsvæði.

Gjáin hefur verið vinsæll ferðamannastaður og er helsta aðdráttarafl hennar lítt röskuð náttúra og friðsæld. Hjálparfoss, Háifoss og Granni og Stöng eru einnig fjölsóttir ferðamannastaðir í Þjórsárdal. Friðlýsingunni er ætlað að varðveita sérkenni og einkenni landslagsins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. Í friðlýsingarskilmálum er tekið fram að þar sem hefðbundnar nytjar eru forsenda fyrir því að varðveita einkenni landslagsins verður miðað að því að tryggja að þeim verði haldið við.

Auk þess að vera fyrsta landslagsverndarsvæðið á Íslandi er friðlýsingin sú fyrsta sem fellur undir viðkvæm svæði undir álagi ferðamanna í friðlýsingarátaki umhverfis- og auðlindaráðherra.
Á undirbúningstíma friðlýsingarinnar var settur aukinn kraftur í umönnun og aukið eftirlit á svæðinu. Á svæðinu var landvarsla frá sumarbyrjun til loka nóvember þar sem farið var í viðhald á helstu gönguleiðum og villustígum lokað, settar voru upp girðingar og leiðbeinandi skilti og stikuðum leiðum var haldið við. Hluti af villustígum voru græddir upp og hefur gróður þar tekið við sér samhliða aukinni stýringu gangandi umferðar um svæðið. Þá var unnið að skipulagningu gönguleiða um svæðið og er áætlað að það skipulag liggi fyrir á næstunni.

Samstarfshópur skipaður fulltrúum frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Umhverfisstofnun, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, forsætisráðuneyti, Minjastofnun Íslands og Skógræktinni vann að undirbúningi friðlýsingarinnar á grundvelli náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og þakkar Umhverfisstofnun þessum aðilum fyrir gott samstarf.

Höfundur myndar: Ingibjörg Marta Bjarnadóttir