Stök frétt

Borið hefur á misskilningi í opinberri umræðu vegna fréttar Umhverfisstofnunar, þar sem átak um fjölgun rafhleðslustöðva var tíundað og einstaklingar og fyrirtæki voru hvött til orkuskipta. Losun frá vegasamgöngum var 975 kt árið 2017. Hlutfallslega er það 34% af þeirri losun sem á sér stað innanlands en undanskilur viðskiptakerfi Evrópusambandsins (aðallega stóriðju og flug frá og til Evrópu), alþjóðaflug og millilandasiglingar,  sem og landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt (LULUCF).

Þetta er sú losun sem kallast „losun á beinni ábyrgð stjórnvalda“, en hugtakið kemur fram í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem var gefin út í fyrra af Umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ef bætt er við losun frá viðskiptakerfi ESB, LULUCF, alþjóðaflugi og millilandasiglingum þá verður hlutfallsleg losun vegasamgangna 6%.

Þegar rætt er um uppsprettur gróðurhúsalofttegunda miðar Umhverfisstofnun oft við losun sem fellur undir ábyrgð stjórnvalda, það er aðra losun en á sér stað í gegnum viðskiptaheimildir, millilandasamgöngur og landnotkun. Umhverfisstofnun stendur því að fullu við fyrri yfirlýsingu.

Ástæða þess að Umhverfisstofnun miðlar sérstaklega upplýsingum um þá losun sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda er að sú losun liggur til grundvallar þeim skuldbindingum sem ríkið hefur gengist við gagnvart ESB. Ísland fær sem sagt úthlutað „losunarkvóta“ og ef losun verður meiri þá mun ríkið þurfa að greiða fyrir losun sem fer umfram kvóta. Losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB er ábyrgð rekstraraðila og hefur ekki áhrif á „losunarkvóta“ ríkisins. Það er því verkefni ríkisins að draga úr losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda svo sem frá samgöngum, sjávarútvegi, úrgangsmeðhöndlun og landbúnaði.

Að lokum má nefna að losunarbókhald Íslands er árlega rýnt mjög ítarlega af sérfræðingum ESB og Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (UNFCCC). Þannig er tryggt að losunarbókhaldið sé rétt, nákvæmt og fullnægjandi. Umhverfisstofnun ætlar að láta ógert að svara sérstaklega gífuryrðum um „talnafalsanir“ Umhverfisstofnunar í losunarbókhaldi.