Stök frétt

Græna helgin var haldin í 9. skipti um síðustu helgi síðastliðinn. Um ræðir átak í náttúruvernd. Nemendur frá tveimur framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Fjölbrautarskólanum við Ármúla, auk erlendra sjálfboðaliða og starfsmanna Umhverfisstofnunar.

Laugardaginn  var unnið að framkvæmdum við Eldborg í Bláfjöllum. Þá mættu 11 nemendur úr FÁ, ásamt tveimur kennurum. Þrír sjálfboðaliðar Umhverfistofnunnar komu frá Bretlandi og Líbanon auk tveggja starfsmanna á vegum Umhverfisstofnunnar.

Liðið skiptist í þrjá hópa. Einn hópur fór í viðhald og stikaði leið í kringum Drottningu, annar hópur lokaði villustíg við Eldborgina en þriðji hópurinn afmáði för vegna utanvegaaksturs sexhjóla og bifhjóla sem finna má ekki langt frá náttúruvættinu, innan marka Bláfjallafólkvangs. Þá var möl og grjót flutt á svæðið til að afmarka betur bílastæði og bera í göngustíga þar sem hafa myndast djúpar kvosir og pollar. Á meðan vinnan stóð yfir fengu nemendur fræðslu um það hvernig mat er gert á ástandi stíga og hvernig viðhaldi er háttað. Þessi hluti Grænu helgarinnar var unninn í umsjá René Biasone og Julie Kermarez, umsjónarmanna Umhverfisstofnunar.

Seinni vinnudag Grænu helgarinnar, var 19 manna-hópur á ferðinni, þar af 14 nemendur frá MH. Þau unnu allan daginn innan marka Reykjanesfólkvangs í að endurheimta landslag með því að afmá för eftir akstur utan vega og afmarka betur slóðir og vegi. Verkefnið var unnið í samráði við Óskar Sævarsson starfsmann Stjórnar Reykjanesfólkvangs. Vinnuhópurinn raðaði grjóti meðfram vegi frá nærliggjandi malarnámu. Má með sanni segja að miklu hafi verið komið í verk á stuttum tíma en sjálfboðaliðunum var skipt upp í tvö teymi sem unnu undir handleiðslu liðstjóra Umhverfisstofnunnar. Að vinnunni lokinni var farið með sjálfboðaliðana í fræðsluferð á Leiðarenda þar sem falleg og viðkvæm náttúra var skoðuð.

Ekki bara framkvæmdir – líka fræðsla

Viðburðir sem þessir snúast ekki einungis um framkvæmdirnar. Einn helsti ávinningur er sú fræðsla og vitundarvakning sem nemendurnir hljóta með því að gerast sjálfboðaliðar í náttúruvernd. Umhverfisstofnun leggur áherslu á fræðslu bæði í verklagi og hugmyndafræði um göngustígagerð, sem og sérstöðu einstakra náttúruverndar- og útivistarsvæða.

Græna helgin í ár var því lærdómsrík, ekki síst fyrir skipuleggjendur sem þurftu að takast á við náttúruöflin, sem og fyrir þá nemendur sem tóku þátt í henni. Er það von Umhverfisstofnunar að frekara samstarf við framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins muni leiða af sér vitundarvakningu um þær fjölmörgu náttúruperlur sem leynast bæði innan Reykjavíkur og og í nánd við. Með slíkri vitundarvakningu og auknum krafti í þátttöku heimafólks í sjálfboðaliðastarfi er hægt að hlúa enn betur að friðlýstum svæðum og útivistarperlum höfuðborgarsvæðisins.

Geta má þess að akstur utan vega hefur verið alvarlegt vandamál á Íslandi og sérstaklega á Suðvesturlandi. Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur fylgst með utanvegaakstri á Reykjanesi árið 2007, 2010 og 2014 og hafa kært fólk. Aðallega eru íslenskir ökumenn torfærutækja að verki. Það blásir við að grípa þarf til frekari aðgerða, en landvarsla hefur aukist á svæðinu og Umhverfisstofnun mun fylgjast með svæðinu í auknum mæli.

Í sumar var utanvegaakstur í Soginu kærður til lögreglu, eins og fram kom í fréttum RÚV í júlí sl. Tvisvar á þessu ári hefur þurft að afmá för eftir utanvegaakstur við Helgafell á Reykjanesi. Auk þess hafa kærumál komið upp við Rauðhóla í Reykjavík, við Bláfjöll, við Eldborg undir Geitahlíð, á mörgum stöðum við Djúpadalsleiðina og í Krýsuvík.