Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur tekið saman upplýsingar um loftgæði fram til ársins 2017.

Ársskýrslan, auk fylgiritsins „Loftgæði á Íslandi – Umhverfisvísar, vöktun og uppsprettur“, er fyrsta samantekt sinnar tegundar á Íslandi.

Í ársskýrslunni er farið yfir mengunarmælingar frá mælistöðvum loftgæða á Íslandi og þær settar í samhengi við íslenskar reglugerðir. Gögn um loftgæði eru fengin úr nýju loftgæðaupplýsingakerfi Umhverfisstofnunar, Airviro, og hafa verið sett fram í skýrslunni í formi mynda og taflna.

Í fylgiritinu er farið almennt yfir loftgæði á Íslandi, loftmengandi efni sem umhverfisvísa, uppsprettur loftmengunar á Íslandi auk vöktunar á loftgæðum. Áætlað er að ársskýrslan verði endurútgefin og uppfærð ár hvert með upplýsingum um loftgæði fyrir árið á undan og fylgiritið yfirfarið reglulega.

Loftgæði eru heilt yfir nokkuð mikil á Íslandi og hafa farið batnandi síðustu ár. Ársmeðaltalsstyrkur svifryks hefur til að mynda farið lækkandi á höfuðborgarsvæðinu frá því að mælingar á efninu hófust en sólarhringsstyrkur efnisins á til að fara yfir heilsuverndarmörk, einkum þegar þurrt er og stillt í veðri eins og var oft árið 2017. Sömu sögu er að segja um köfnunarefnisdíoxíð, en árið 2017 fór efnið oftar yfir sólarhringsmörkin á Grensásvegi en leyfilegt er. Þetta má líklega rekja til mikillar vetrarstillu það ár. Hinsvegar er ársmeðaltalsstyrkur köfnunarefnisdíoxíðs vel undir heilsuverndarmörkum, og hefur verið frá því að mælingar á efninu hófust.

Styrkur brennisteinsdíoxíðs er almennt mjög lágur í þéttbýli en hærri í kringum iðnað. Styrkurinn hefur þó farið lækkandi í kringum iðnað síðustu fimm ár. Styrkur brennisteinsvetnis, sem rekja má til jarðvarmavirkjana og -svæða, hefur haldist nokkuð stöðugur á þeim stöðum sem efnið er mælt og er undir öllum heilsuverndarmörkum efnisins.