Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð, Vegagerðina og Lögregluna málstofu um akstur á hálendi Íslands á Selfossi 26. febrúar sl.  Rúmlega 70 manns mættu, bæði ferðaþjónustuaðilar og útivistarfólk og var mál manna að fundi loknum að málstofan hefði tekist vel.

Meginmarkmið með málþinginu var að koma á samtali milli opinberra stofnana og ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á ferðir á hálendi Íslands allt árið um kring. Fyrirlesarar voru frá opinberum stofnunum og samtökum ferðaþjónustufyrirtækja.

Nicolai Jónasson frá Vegagerðinni fjallaði um lokanir hálendisvega í lok vetrar og á vorin og undanþáguveitingar á akstri. Hér má nálgast Minnisblað um tilhögun undanþáguveitinga á akstri og umgengni á náttúruverndarsvæðum á hálendi Íslands og hér eru upplýsingar um Hvenær fjallvegir opnast og hvað ræður opnunardegi sem er uppfært árlega. Fyrirkomulag sem viðhaft er í dag er niðurstaða langra umræðu og skipulagningar fagstofnana í samvinnu við hagsmunaaðila. Fyrirkomulagið eins og það er í dag er skoðað árlega og farið yfir að hvort bæta þurfi það eða breyta.

Hákon Ásgeirsson frá Umhverfisstofnun fjallaði um ástæður þess að takmarkanir á umferð á viðkvæmum tímum eru mikilvægar á hálendinu. Þegar snjóa leysir og frost fer úr jörð er náttúran sérstaklega viðkvæm fyrir allri umferð. Þá verður jarðvegur vatnssósa, vatnið á ekki greiða leið ofan í jarðveginn, þar sem yfirborð jarðvegar þiðnar fyrst,  gróður er enn í dvala og hefur ekkert viðnámi fyrir ágangi. Einnig fjallaði Hákon um akstur á snjó og hvaða lög og reglugerðir gilda þar um. Hann sagði allt of algengt að ekið væri á ótraustum snjó og inn á snjólaus svæði sem getur markað hjólför í landið. Einnig þarf að hafa í huga að göngustígar á hálendinu eru almennt ekki í stakk búnir til að taka á móti gangandi umferð á meðan frost er að fara úr jörðu.

Anna Sigríður Valdimarsdóttir frá Landgræðslunni fór yfir áhrif utanvegaaksturs á gróður og jarðveg. Anna benti á að utanvegaakstur væri mikið umhverfisvandamál og hefði neikvæð áhrif, ekki bara á staðbundinn gróður og jarðveg heldur einnig ásýnd landslags. Anna kom að gerð leiðbeiningarits sem má nálgast hér um Flokkun og viðgerðir á landskemmdum vegna utanvegaaksturs . Í ritinu eru leiðbeiningar um flokkun og viðgerðir á landi sem hefur skemmst af völdum utanvegaaksturs. En sömu grundvallaratriði í ritinu eiga einnig við þegar um er að ræða rask á landi vegna t.d. gönguferða, hjólreiða eða hestaferða.

Sveinn Kristján Rúnarsson frá Lögreglunni á Suðurlandi fór yfir lög og reglugerðir um akstur á lokuðum vegum. Sveinn benti á að ákvæði um akstur utan vega eru í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, en akstur á lokuðum vegum er í umferðarlögum nr. 50/1987. Á akstur á lokuðum vegum mögulega heima í lögum um náttúruvernd þar sem lokanir vega á hálendinu er ekki síst vegna verndar náttúru á viðkvæmum tíma. Sveinn benti einnig á að hugarfarsbreytingu þyrfti til að auka verndun náttúru og auka gæslu á hálendinu. Fjárheimildir til þess málafloks fara þó vaxandi og verður eftirlit vonandi aukið í framhaldinu.

 

Gunnar Valur Sveinsson frá SAF fjallað m.a. um Samgönguáætlun 2019-2023 þar sem tilgreint er að stofnvegir á hálendinu séu Kjalvegur, Sprengisandsvegur, Fjallabaksleið nyrðri og Kaldadalsvegur. Leitast á við að halda stofnvegum lengur opnum á hálendinu að vinsælum ferðamannastöðum með fyrirvara um ástand vega, nánasta umhverfi og náttúruvernd. Gunnar benti á að í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 er markmiðið að stofnvegir um miðhálendið verði opnir 4-6 mánuði á ári. Forvarnir og stýring er grundvallaratriði og að unnið sé með hagsmunaaðilum. Gunnar benti á að ef vegir verði lítilega upphækkaðir muni líkur á utanvegaakstri minka sem og eldsneytisnotkun sem skilar minna kolefnisspori. Mikilvægt er að akstur á viðkvæmum ástíma sé skilyrtur, að aðgengi verði í gegnum skráningu og aðeins rekstraraðilar verði heimilaður aðgangur. Gunnar benti einnig að margir rekstraraðilar á hálendinu vilja lifa allt árið og að vinna þurfi með þeim að opnun vega. Treysta þarf rekstraraðilum til að gæta að náttúruvernd.

 

Jón Páll Baldvinsson frá FETAR sagði frá félaginu sem stendur fyrir eigendur torfærutækja í atvinnurekstri. Það eru ferðaþjónustufyrirtæki sem bjóða upp á heilsárs þjónustu á hálendi og láglendi Íslands. Ferðaþjónustuaðilar í FETAR eru á sérútbúnum farartækjum sem gera þeim kleift að ferðast um á snjó og einföldustu vegi á hálendinu og valda minnsta mögulega raski á náttúru Íslands. Markmið FETAR er meðal annars að stuðla að aukinni fagmennsku og náttúruvernd. Jón benti m.a. á að FETAR kalli eftir samvinnu við dreifingu álagi á ferðamannastaði og minnka umferð vanbúinna ferðalanga.