Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur veitt Stakksbraut 9 ehf. starfsleyfi fyrir rekstur kísilverksmiðju á lóðinni að Stakksbraut 9 á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Leyfið veitir heimild til að framleiða allt að 100.000 tonn á ári af hrákísli og allt að 38.000 tonnum af kísilryki og 6.000 tonnum af kísilgjalli. 

Tillaga að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna var auglýst á tímabilinu 16. apríl til 11. júní 2014. Umhverfisstofnun hélt einnig opinn kynningarfund um tillöguna í Duushúsi í Reykanesbæ þann 29. apríl s.l. þar sem ferill í veitingu starfsleyfa var kynntur og síðan farið yfir ákvæði í tillögunni. Að því loknu voru umræður um fyrirhugaða starfsemi og um mengunarmál á svæðinu. 

Í starfsleyfinu er lögð megináhersla á að takmarka losun verksmiðjunnar til lofts enda er verksmiðjan fyrirhuguð í um tveggja kílómetra fjarlægð frá byggð. Höfð er hliðsjón af fyrri starfsleyfum stofnunarinnar fyrir sambærilegan iðnað og upplýsingum í matsskýrslu sem unnin var þegar framkvæmdirnar fóru í mat á umhverfisáhrifum. Tekin eru upp ítarleg losunarmörk fyrir heildarlosun einstakra þungmálma, PCDD/PCDF efna (einnig kölluð díoxín og fúrön) og B(a)P til lofts sem ekki hefur verið gert á þennan hátt í starfsleyfum Umhverfisstofnunar áður. Þá er ákvæði um að mæla skuli ryk í útblæstri í samfelldri mælingu. 

Áður en tillagan var auglýst voru drög send til heilbrigðisnefndar Suðurnesjasvæðis. Í umsögn heilbrigðisfulltrúa var minnt á mikilvægi skýrra leiða til úrgangsmeðhöndlunar og endurvinnslu og bent á að fráveita hafnarsvæðisins uppfyllir ekki ákvæði reglugerðar. Í framhaldi af þessari umsögn aflaði rekstraraðili fylgigagns með umsókninni sem var yfirlýsing Reykjaneshafnar um að skólplagnir frá lóðinni Stakksbraut 9 verðir tengdar fráveitukerfi Reykjanesbæjar og muni standast ákvæði reglugerðar nr. 798/1999, um fráveitur og skólp. 

Á auglýsingatíma bárust þrjár umsagnir og fylgja þær með fréttinni ásamt greinargerð um úrvinnslu þeirra. Einkum eru áhyggjur af fyrirkomulagi útblásturs og dreifingu hans en einnig um hvort notaðir séu neyðarskorsteinar. Þá kemur fram vilji til sameiginlegrar umhverfisvöktunar fyrir svæðið. 

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 31. júlí 2030.

Tengd gögn