Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir GMR Endurvinnsluna ehf. til að vinna járnbita úr allt að 32.850 tonnum af brotajárni á ári. Um er að ræða nýjan rekstur á Grundartangasvæðinu. 

Tilkynnt var um væntanlega framkvæmd til Skipulagsstofnunar sem tók ákvörðun um matsskyldu þann 24. júní 2010. Rekstraraðili hefur til starfseminnar tímabundna undanþágu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og gildir hún til 1. mars 2014, eða þar til starfsleyfi verður gefið út. Skilyrðin í starfsleyfistillögunni miðast við umfjöllun Skipulagsstofnunar, starfsleyfisskilyrði sambærilegra fyrirtækja sem hafa starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun sem og losunarmörk sem mælt er með af Evrópusambandinu eða leiða af BAT umfjöllun á vettvangi þess. 

Formlegur auglýsingartími starfsleyfistillögunnar er á tímabilinu 4. september til 30. október 2013. Hér að neðan má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar, umsóknargögnin, tilkynningu til Skipulagsstofnunar og matsskylduákvörðun hennar, auk lóðarteikninga og deiliskipulags á staðnum. 

Umhverfisstofnun hyggst halda opinn kynningarfund um tillöguna, sem og nýlega auglýsta starfsleyfistillögu fyrir Kratus ehf. Fundurinn verður haldinn í Fannahlíð, Hvalfjarðarsveit, kl. 17, þann 4. september.

Tengd skjöl