Stök frétt

Umhverfisstofnun barst ábending frá Kastljósi um að starfsemi aflþynnuverksmiðju Becromal Iceland í Krossanesi sé ekki í samræmi við ákvæði starfsleyfis verksmiðjunnar. Umhverfisstofnun fór í eftirlit til fyrirtækisins samdægurs til þess að ganga úr skugga um hvort ábending sé á rökum reist.

Umhverfisstofnun telur á grundvelli gagna sem stofnunin hefur fengið og safnað saman að um brot á starfsleyfi sé að ræða. Í fyrsta lagi brot á grein 2.8 um sýrustig í frárennsli. Í öðru lagi brot á grein 3.1 um mælingar. Í þriðja lagi brot á grein 4.5 um tilkynningar á frávikum og bilunum í mengunarvarnarbúnaði.

Stofnunin hefur sent Becromal áform um áminningu og gerð er krafa um að fyrirtæki skili inn áætlun um hvenær það áformi að ljúka úrbótum eigi síðar en 4. apríl. Frestur fyrirtækis til að skila inn athugasemdum er lögbundinn.

Stofnunin er að skoða málið nánar, m.a. hvort gripið verði til frekari aðgerða.

Um starfsleyfi og mengunareftirlit

Í starfsleyfum er tilgreint umfang leyfilegrar losunar mengandi efna út í umhverfið, hvaða mengunarvarnir skuli viðhafnar til að draga úr losun efna og hvaða mælingar skuli gera til að fylgjast með því að ákvæði starfsleyfisins séu uppfyllt. Jafnframt er iðulega kveðið á um skráningar atburða og atvika, virkni búnaðar o.fl.

Tilhögun mengunareftirlits er í meginatriðum þríþætt

  • Yfirferð mælinga á losun efna eða virkni mengunarvarnabúnaðar. Þessi gögn eru yfirleitt send stofnuninni reglulega, að jafnaði annað hvort ársfjórðungslega eða árlega.
  • Heimsóknir í starfsstöðvar þar sem farið er yfir mæliniðurstöður og önnur helstu atriði starfsleyfis og gengið eftir því hvernig þeim er fylgt. Farið yfir skráningar eftirlitsþega og hvort þær samræmist öðrum gögnum.
  • Móttaka ábendinga og kvartana og viðbrögð við þeim, ásamt eftirfylgni athugasemda.

Það er rétt að benda á að eðli stóriðju er slíkt að það er ekki hægt að haga starfseminni eftir því hvort eftirlit er á staðnum eður ei. Einnig er iðullega ekki gott að sjá í sjálfu eftirlitinu hvort ákvæðum starfsleyfa sé fylgt, til þess þarf mælingar. Það er því mikilvægara fyrir virkni eftirlits að fulltrúar eftirlitsþega séu tilbúnir með gögn og undirbúnir því að svara spurningum heldur en að mætt sé óforvendis. Það eru hins vegar eðlileg viðbrögð ef ber á kvörtunum eða að grunur er uppi um að rangt sé við haft. Umhverfisstofnun hefur farið í óundirbúið eftirlit og áformar að fara í ákveðinn fjölda óundirbúins eftirlits á ári.

Starfsemi Becromal

Fyrirtækið hóf starfsemi sumarið 2009 en byrjaði smátt með einungis eina vélasamstæðu af sex. Umhverfisstofnun fór í eftirlit þá um haustið í þeim megintilgangi að skoða aðstöðuna, koma á formlegum tengslum milli aðila og fara yfir einstök ákvæði starfsleyfisins með fulltrúum fyrirtækisins. Gengið var um fyrirtækið og aðstaða könnuð, þ.á m. mælitæki og mengunarvarnir, ekki síst lekavarnir efnageymslna. Ekki var farið út í mælingar enda starfsemi ekki komin í það umfang að það væri hægt.

Haustið 2010 er farið í fyrsta eiginlega eftirlitið. Þá eru komnar í gagnið þrjár vélasamstæður en þar sem umfang starfseminnar er ekki orðið í fullan gang er ekki talin þörf á mælingu heildarlosunar efna fyrr en í upphafi árs 2011. Hins vegar var símæling á pH gildi komin til framkvæmda á þeim tíma.

Frárennsli fyrirtækisins fer í fráveitukerfi Akureyrarbæjar og fer þaðan um bráðabirgðaútrás við Krossanes í grjótgarði við hliðina á hafnarbakkanum. Það er álit Umhverfisstofnunar (og Skipulagsstofnunar, sbr. álit um tilkynningaskyldu) að tímabundin losun um bráðabirgðaútrás hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif. Í starfsleyfi er veitt heimild til losunar til bráðabirgða en jafnframt að frárennsli skuli veitt í hreinsistöð í Sandgerðisbót eigi síðar en 1. ágúst 2012.

Rétt er að nefna að í Kastljósi í gær er vísað til þess að ákvæði í reglugerð um fráveitur og skólp kveði á um að pH eigi að vera á bilinu 6-9 (fylgiskjal 1 b), þ.e. að starfsleyfið gefi víðari mörk. Þessi ákvæði eiga við um losun í ferskvatn en ekkert pH gildi sem slíkt á við um losun í sjó í reglugerðinni. Í starfsleyfi er því um að ræða harðari ákvæði en þar er kveðið á um.

Starfsleyfi og mælingar

Eftirlitsmælingar skv. starfsleyfi eru tvenns konar

  1. Símæling ákveðinna grunnþátta s.s. sýrustig, styrk fosfórs og leiðni. Niðurstöður mælinga skal senda til Umhverfisstofnunar auk þess sem þær eiga einnig ætíð að vera aðgengilegar eftirlitsaðila.
  2. Mæling á heildarmagni efna í frárennsli fjórum sinnum á ári.

Einnig er kveðið á um nokkur óvissuatriði, s.s. um hljóðstig og lyktarmengun.

Ákvæði í starfsleyfi kveða á um að sýrustig skuli haldast innan ákveðins bils sem metið er sem hættulaust fyrir lífríki. Efniseiginleikar sjávar eru þess eðlis að sjórinn á auðvelt með að bregðast við breytingum á sýrustigi. Gildi pH sjávar er á bilinu 7,5-8,4 en gera má ráð fyrir árlegum sveiflum í strandsjó eftir innstreymi ferskvatns.

Kröfur um mælingar í starfsleyfum miða við umfang starfseminnar og mat á áhrifum á umhverfið vegna hennar. Starfsleyfið miðar því til eftirlits til langs tíma. Þegar starfsemi er ekki komin í fullan gang má gera ráð fyrir að áhrifin séu að sama skapi minni en í fullri starfsemi. Það er því ekki ástæða til að fara í mat á heildarlosun efna fyrr en starfsemi er komin af stað. Mælingin er til að fylgjast með áhrifum starfseminnar.