Umhverfistofnun - Logo

Stjórnunar- og verndaráætlun

Umsjón og rekstur

Snæfellsjökulsþjóðgarður heyrir undir svið náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun, en stofnunin heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Umhverfisstofnun fer með stjórn þjóðgarðsins.

Þjóðgarðsvörður fer með daglega umsjón og rekstur þjóðgarðsins og vinnur að áætlanagerð og stefnumörkun í ólíkum málaflokkum.  

Sérfræðingur starfar með þjóðgarðsverði allt árið og er staðgengill hans.  

Á sumrin starfa landverðir í þjóðgarðinum. Þeirra starf felst einkum í fræðslu, eftirliti og viðhaldi.

Með Umhverfisstofnun starfar þjóðgarðsráð sem er skipuð fulltrúum:

  • Umhverfisstofnunar, Inga Dóra Hrólfsdóttir
  • Ferðaþjónustusamtök á Snæfellsnesi, Þórður Runólfsson
  • Minjastofnun Íslands, Magnús Aðalsteinn Sigurðsson
  • Náttúruverndarsamtök, Anna Hallgrímsdóttir
  • Samtök útivistarfélaga, Iðunn Bragadóttir
  • Snæfellsbæjar, Kristins Jónasson (formaður)

Hlutverk þjóðgarðsráðs er að fjalla um stefnumarkandi mál er varða þjóðgarðinn

Tvö friðlönd og eitt náttúruvætti heyra undir stjórn þjóðgarðsins. Friðlöndin eru Búðahraun og ströndin við Arnarstapa og Hellna og náttúruvættið Bárðarlaug við Hellna.

Stofnun þjóðgarðsins

Snæfellsjökulsþjóðgarður var stofnaður 28. júní árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Jafnframt er markmiðið að auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því.

Friðlýsing á utanverðu Snæfellsnesi á sér nokkuð langan aðdraganda. Eftir setningu laga um náttúruvernd árið 1971 fjallaði Náttúruverndarráð um friðlýsingu á ytri hluta Breiðavíkurhrepps.

Ári síðar var fyrsta náttúruverndarþingið haldið og ályktaði það um að stofna þjóðgarð á Snæfellsnesi. Í skýrslu um störf Náttúruverndarráðs fyrir árin 1972-75 kemur fram að unnið hafi verið að stofnun þjóðgarðs eða friðlýsingar á utanverðu Snæfellsnesi og höfðu viðræður við landeigendur þá þegar hafist. Árið 1977 kom fram tillaga um friðland undir jökli en hún náði ekki fram að ganga.

Það var síðan árið 1994 sem þáverandi umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, skipaði undirbúningsnefnd til að vinna að stofnun þjóðgarðs. Formaður þeirrar nefndar var Sturla Böðvarsson, fv. samgönguráðherra og skilaði nefndin lokaskýrslu árið 1997. Sú skýrsla er grunnur að þeirri vinnu sem fram fór í kjölfarið. Árið 2000 var síðan ákveðið að stofna þjóðgarðinn ári síðar.

Um miðjan maí 2001 skipaði Siv Friðleifsdóttir þáverandi umhverfisráðherra fimm manna starfshóp til að annast undirbúning að stofnun hans. Þjóðgarðurinn var síðan stofnaður, eins og fyrr segir, þann 28. júní 2001.

Stofnun þjóðgarðs er staðfesting þess að á svæðinu sé að finna merkar menningar- og/eða náttúruminjar sem vert sé að varðveita. Með því að gera landsvæði að þjóðgarði erum við að vernda það fyrir framtíðina en einnig að tryggja að allir hafi sama tækifæri til að njóta þess. Orð Eysteins Jónssonar ráðherra fyrir um 35 árum eiga vel við þegar þjóðgarða og mikilvægi þeirra ber á góma og gerði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra þessi orð hans að sínum á stofndegi þjóðgarðsins. Eysteinn sagði:

„Þetta að umgangast land, það er í raun og veru alveg eins og að umgangast fólk. Það er í raun og veru innst inni ekki svo ýkja mikill munur á því. Ef menn umgangast ekki, er hætt við að kunningsskapurinn verði lítill og vinátta ekki djúpstæð."

Stjórnun og stofnun

Verndaráætlunin felur í sér stefnumörkun til framtíðar og er jafnframt stjórntæki sem tekur m. a.  á landvörslu, skipulagi, vernd og stjórnun.

Umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir staðfesti verndaráætlun þjóðgarðsins Snæfellsjökuls þann 15. júní 2010.

Ráðherra undirritaði þann hluta verndaráætlunarinnar þar sem meginmarkmið hennar eru tilgreind. Aðrir hlutar fylgja með sem viðaukar en þeir eru: framkvæmdaáætlun, verkefnaáætlun, heildarsamantekt, umfjöllun um jarðminjar, lífríki og menningarminjar.

Í vinnu við verndaráætlun er gerð grein fyrir þeim verðmætum sem viðkomandi svæði býr yfir og hvert verndargildi þess er. Með verndaráætlun er horft til framtíðar og hugsað til þess hvernig við viljum að ástand staðarins verði í framtíðinni og hvernig við getum stuðlað að því að svo verði.

Í verndaráætlun er velt upp spurningunni hvernig verndun verði best tryggð um leið og staðurinn er gerður aðgengilegur fyrir gesti. Þá er gerð grein fyrir stefnu og markmiðum í hinum ýmsu málaflokkum og  á hvað beri að leggja áherslu.

Markmið verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn Snæfellsjökul er að tryggja vernd náttúru- og menningarminja. Í þessu felst m.a. að náttúra þjóðgarðsins fái að þróast eftir eigin lögmálum eins og kostur er um leið og almenningi er gert kleift að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða. Fleiri ferðamönnum fylgir aukið álag á náttúruna og eykur það þörfina á skipulagi vegna verndunar innan þjóðgarðsins.

Starfsmenn þjóðgarðsins unnu verndaráætlunin en að þeirri vinnu kom einnig ráðgjafarnefnd þjóðgarðsins, starfsmenn Umhverfisstofnunar og sérfræðingar frá öðrum stofnunum. Verndaráætlunin var send út til umsagnar til stofnana auk þess sem hún var aðgengileg almenningi til umsagnar á vef Umhverfisstofnunar og hjá bæjarfélögum á Snæfellsnesi.