Dverghamrar

Dverghamrar eru einkar formfagrir stuðlabergshamrar sem standa fram á sléttlendi. Hamrarnir eru myndaðir úr blágrýti og eru nokkuð stórstuðlaðir, þar sem einstaka stuðlar eru allt að meter að þvermáli. Ofan á stuðlaberginu er svokallað kubbaberg.

Stuðlaberg líkt og það sem finnst í Dverghömrum myndast í við kólnunarferil ný runnins hrauns. Eftir að hafa storknað heldur hraunið áfram að kólna, við kólnun dregst bergið saman. Að endingu klofnar hraunið í stuðla, sem alla jafna eru fimm- eða sexhyrndir. Stuðlarnir eru ávallt hornréttir á kólnunarflöt, sem veldur því að þeir standa lóðréttir í hraunlögum líkt og í Dverghömrum. Ofarlega í hinu nýrunna hrauni hefur kólnunin orðið hraðari en í kjarna þess. Við hraðari kólnun myndast hið óreglulega kubbaberg sem má sjá ofan á formfögru stuðlunum. Við lok síðustu ísaldar var sjávarstaða við Ísland hærri og er talið að núverandi útlit hamranna hafi þá verið mótað af sjávarrofi.

Dverghamrar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1987. Stærð náttúruvættisins er 2,14 ha.