Goðafoss í Þingeyjarsveit

Áform um friðlýsingu Goðafoss í Þingeyjarsveit

Umhverfisstofnun, í samstarfi við landeigendur Rauðár, Ljósavatns og Hriflu og sveitarfélagið Þingeyjarsveit, kynnir hér með áform um friðlýsingu Goðafoss í Þingeyjarsveit sem náttúruvættis í samræmi við 48. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Hann er einn af vatnsmestu fossum landsins og greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri. Ásýnd fossins er fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Goðafoss er 9-17 m hár og um 30 m breiður. Landið við vesturbakka Goðafoss heitir Hrútey, en hún afmarkast af Hrúteyjarkvísl sem greinist frá Skjálfandafljóti ofan við Goðafoss, en sameinast fljótinu aftur alllangt neðar.

Þjóðsaga segir að Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði hafi varpað goðalíkneskjum sínum í fossinn í kjölfar þess að honum hafi verið falið það hlutverk að ná lögsáttum milli heiðinna manna og kristinna, og hann tekið upp nýjan sið. Af þessu á Goðafoss að hafa dregið nafn sitt.

Goðafoss er vinsæll ferðamannastaður og þangað kemur fjöldi ferðamanna allan ársins hring.

 

Tillaga að mörkum svæðisins miðast við hnitsett mörk sem birt eru á korti. 

 

Friðlýsingaráformin eru kynnt í samræmi við málsmeðferð 2. og 3. mgr. 36. gr. náttúruverndarlaga, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, landeigenda, Þingeyjarsveitar og Minjastofnunar vinna drög að auglýsingu um friðlýsingu svæðisins sem lögð verður fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Tillagan verður auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir við framlagða tillögu. 

Þau áform sem nú eru kynnt miða að því að vernda sérstæðar náttúruminjar, breytileika jarðmyndana og fossinn sjálfan, m.a. með því að viðhalda náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn, vegna fegurðar, sérkenna og útivistargildi svæðisins. Í auglýsingu um friðlýsingu svæðisins er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni, m.a. á umferðarrétti og framkvæmdir. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis. 

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 18. september 2019. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Frekari upplýsingar veita Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is) og Davíð Örvar Hansson (david.hansson@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000. 

Upplýsingar

Skrár