Geysir

Umhverfisstofnun hefur nú, í samvinnu við sveitarfélagið Bláskógabyggð, hafið vinnu við undirbúning að friðlýsingu Geysissvæðisins og nágrennis, innan marka jarðarinnar Laugar.

 Geysissvæðið er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar, enda eitt fárra sem þekkt var í árhundruð. Fjölmargir hverir og laugar eru á svæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þeirra þekktastir. Suður af hverasvæðinu er allmikið mýrlendi, Almenningur, sem er að hluta innan jarðarinnar Laugar og teygir jarðhitinn sig þangað. Almenningur er eitt af fáum votlendissvæðum sem eru því sem næst óröskuð á Suðurlandi.  

 Markmið með friðlýsingu svæðisins er að stuðla að varðveislu sérstæðra jarðmyndana, hvera, örvera og sérstæðs gróðurs á hverasvæðinu sem er einstæður á lands- og heimsmælikvarða. Þá er markmiðið jafnframt að vernda hluta votlendis sem kennt er við Almenning og er eitt af fáum lítt snortnum votlendissvæðum á Suðurlandi ásamt gróðurfari og vistkerfum í landi Laugar.

 Gert er ráð fyrir að drög að friðlýsingarskilmálum verði auglýst til kynningar í lok júní þar sem öllum gefst tækifæri til að koma að athugasemdum og ábendingum. Frestur til að gera athugasemdir er 3 mánuðir.

 Umhverfisstofnun hefur gefið út handbók um stjórnun friðlýstra svæða í umsjón Umhverfisstofnunar þar sem meðal annars er að finna leiðbeiningar varðandi ákvörðun um friðlýsingu og þeim verkferlum sem unnið er eftir þegar svæði eru friðlýst. Á heimasíðu Umhverfisstofnunar má finna handbókina og verða þær leiðbeiningar hafðar til hliðsjónar við undirbúning að friðlýsingu svæðisins.

 Umhverfisstofnun upplýsir hér með að vinna við friðlýsingu Geysis er hafin. Hagsmunaaðilar og aðrir sem áhuga hafa á svæðinu eru hvattir til að kynna sér vinnu við gerð skilmála og er ábendingum og athugasemdum sem nýtast við undirbúninginn er fagnað. 

Ábendingum og athugasemdum má koma á framfæri á netfangið ust@ust.is eða í gegnum þetta form.

 Hér fyrir neðan má sjá samráðsáætlun og verk- og tímaáætlun

Samráðsáætlun
Verk- og tímaáætlun