Kerlingarfjöll

Tillaga að friðlýsingu háhitasvæði Kerlingarfjalla: 79 Hverabotn, 80 Neðri-Hveradalir, 81 Kisubotnar og 82 Þverfell í verndarflokki rammaáætlunar – frestur til athugasemda

Umhverfisstofnun hefur nú lagt fram til kynningar tillögu að friðlýsingu háhitasvæðis Kerlingarfjalla á Suðurlandi: 79 Hverabotn, 80 Neðri-Hveradalir, 81 Kisubotnar og 82 Þverfell á grundvelli flokkunar svæðisins í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar (rammaáætlunar), sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun tekur rammaáætlun til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn skv. 8. gr. laganna hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Í tilfelli háhitasvæðis Kerlingarfjalla er því um að ræða friðlýsingu gegn orkuvinnslu varmaafls 50 MW eða meira.

Lögð er fram tillaga að auglýsingu um friðlýsingu svæðisins og kort þar sem tillaga að mörkum svæðisins er dregin upp.

Tillagan byggir á 53. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.

Forsendur afmörkunar

Faghópur 1 í 2. áfanga rammaáætlunar skilgreindi áhrifasvæði háhitavirkjunar svo: „Afmörkun jarðhitasvæða byggði á tvennu (Kort 3.1). Matsvæðið var dregið eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum, en stundum 1-2 km út fyrir það eftir landslagi. Þar sem vissa eða miklar líkur voru fyrir því að áhrif vinnslu næðu út fyrir viðnámssvæðið eða landslagsheild var allt áhrifasvæðið tekið með í verðmæta- og áhrifamati.“ (Lokaskýrsla verkefnisstjórnar 2. áfanga, bls. 49). Nánar tiltekið studdist faghópur 1 í 2. áfanga rammaáætlunar við skýrslu Knúts Árnasonar og Rögnu Karlsdóttur (Greinargerð ÍSOR-06108, maí 2006) um mat á stærð háhitasvæða með viðnámsmælingum en þar segir (bls. 7): „Að gefnum þessum forsendum virðist því eðlilegt að meta stærð jarðhitageymanna út

frá flatarmáli þess svæðis þar sem háviðnámskjarninn kemur fram á 800 m dýpi eða

grynnra“.

Í skýrslu Rögnu Karlsdóttur og Arnars Más Vilhjálmssonar (2007), „Kerlingarfjöll. TEM-mælingar 2004-2005“ (ÍSOR-2007/014), er gerð grein fyrir niðurstöðum viðnámsmælinga í Kerlingarfjöllum á árunum 2004 og 2005. Sumarið 2008 var viðnámsmælingum framhaldið í Kerlingarfjöllum og varð þá ljóst að jarðhitasvæðið var stærra en þær viðnámsmælingar sem lýst var í skýrslu Rögnu og Arnars Más frá 2007 gáfu til kynna. Þar af leiddi að afmörkun háviðnámskjarnans sem faghópar í 2. áfanga rammaáætlunar mátu svæðið út frá var of lítil. Í samræmi við það lögðu Sveinbjörn Björnsson og Magnús Ólafsson (2009), sérfræðingar í jarðhitafræðum, til að stuðst yrði við nýju viðnámsmælingarnar við afmörkun jarðhitasvæðisins í Kerlingarfjöllum, og að Þverfell yrði haft innan matssvæðis. Sjá nánari umfjöllun í minnisblaði Magnúsar fyrir UAR, 2019, bls. 3. Þegar minnisblað þeirra Sveinbjörns og Magnúsar var ritað höfðu endanlegar niðurstöður úr viðnámsmælingunum ekki verið formlega birtar, en þær voru síðar gefnar út í skýrslunni „Kerlingarfjöll. TEM- og MT-mælingar 2008“ (ÍSOR-2010/001) eftir þau Rögnu Karlsdóttur, Hjálmar Eysteinsson og Arnar Má Vilhjálmsson (2010).

Það er út frá niðurstöðum TEM- og MT-mælinganna frá 2008 sem háviðnámskjarninn var afmarkaður fyrir jarðhitasvæðið í Kerlingarfjöllum, (sjá minnisblað Magnúsar Ólafssonar um Kerlingarfjöll 2019) og samkvæmt þeirri forskrift sem lýst er í skýrslu Knúts Árnasonar og Rögnu Karlsdóttur (2006), sjá hér að framan.

Lagt er til að við afmörkun verndarsvæðisins verði horft til afmörkunar háviðnámskjarna sem skilgreind er í minnisblaði Magnúsar Ólafssonar fyrir UAR (2019), mynd 3 (svört lína). Sú afmörkun tekur mið af bestu fáanlegum viðnámsmælingum í Kerlingarfjöllum, úr skýrslu ÍSOR-2010/001. Afmörkunin tekur einnig mið af tillögu Sveinbjörns og Magnúsar í minnisblaði þeirra frá 2009 um að Þverfell teljist hluti af svæðinu. Verndarsvæði vegna jarðhitanýtingar í Kerlingarfjöllum, vegna virkjunarkostanna 79 Hverabotn, 80 Neðri-Hveradalir, 81 Kisubotnar og 82 Þverfell, er því dregið 2 km út frá háviðnámskjarna eins og hann er skilgreindur í skýrslu ÍSOR-2010/001 (sjá mynd 3, brotin blá lína, í minnisblaði Magnúsar Ólafssonar fyrir UAR (2019).

Frestur til að skila athugasemdum

Frestur til að skila athugasemdum er til og með 3. júní 2020. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við tillöguna og vísar tillögu að friðlýsingarskilmálum til ráðherra. Athugasemdum má skila hér að neðan á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frekari upplýsingar veita Freyja Pétursdóttir (freyjap@ust.is) og Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@umhverfisstofnun.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Upplýsingar

Skrár