Geysissvæðið - 78 Geysir

Tillaga að friðlýsingu háhitasvæði Geysis: 78 Geysir í verndarflokki rammaáætlunar – frestur til athugasemda

Umhverfisstofnun hefur nú lagt fram til kynningar tillögu að friðlýsingu Geysissvæðis: 78 Geysir á grundvelli flokkunar svæðisins í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar (rammaáætlun), sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun tekur rammaáætlun til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn skv. 8. gr. laganna hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Í tilfelli háhitasvæðis Geysis er því um að ræða friðlýsingu gegn orkuvinnslu varmaafls 50 MW eða meira.

Lögð er fram tillaga að auglýsingu um friðlýsingu svæðisins og kort þar sem tillaga að mörkum svæðisins er dregin upp.

Tillagan byggir á 53. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.

Forsendur afmörkunar

Faghópur 1 í 2. áfanga rammaáætlunar skilgreindi áhrifasvæði háhitavirkjunar svo: „Afmörkun jarðhitasvæða byggði á tvennu (Kort 3.1). Matsvæðið var dregið eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum, en stundum 1-2 km út fyrir það eftir landslagi. Þar sem vissa eða miklar líkur voru fyrir því að áhrif vinnslu næðu út fyrir viðnámssvæðið eða landslagsheild var allt áhrifasvæðið tekið með í verðmæta- og áhrifamati.“ (Lokaskýrsla verkefnisstjórnar 2. áfanga, bls. 49). Nánar tiltekið studdist faghópur 1 í 2. áfanga rammaáætlunar við skýrslu Knúts Árnasonar og Rögnu Karlsdóttur (Greinargerð ÍSOR-06108, maí 2006) um mat á stærð háhitasvæða með viðnámsmælingum en þar segir (bls. 7): „Að gefnum þessum forsendum virðist því eðlilegt að meta stærð jarðhitageymanna út

frá flatarmáli þess svæðis þar sem háviðnámskjarninn kemur fram á 800 m dýpi eða

grynnra“.

„Jarðhitasvæðið við Geysi var viðnámsmælt árin 2002 og 2003 og gerð var grein fyrir niðurstöðum og túlkun þeirra í skýrslu ÍSOR, TEM-mælingar á Geysissvæði (Ragna Karlsdóttir, 2004). Niðurstöður eru í grófum dráttum þær að jarðhitakerfið við Geysi hefur ekki hefðbundin einkenni háhitasvæða á Íslandi og svipar niðurstöðum frekar til mjög heitra lághitakerfa, t.d. jarðhitakerfisins á Efri Reykjum í Bláskógabyggð og Hveravöllum á Kili. Enginn eiginlegur háviðnámskjarni sést ofan 1000 m dýpis og því erfitt að beita þeirri aðferð sem líst er hér að ofan til að afmarka útmörk jarðhitakerfisins.“ (Minnisblað Magnúsar Ólafssonar um Geysi fyrir UAR, 2019, bls. 2).

Þrátt fyrir að hefðbundinn háviðnámskjarni finnist ekki ofan 1000 m dýpis á Geysi kemur fram í framanskráðu minnisblaði Magnúsar Ólafssonar að hægt er að nota viðnámsmælingarnar sem fyrir liggja til að afmarka útmörk jarðhitasvæðisins. Þau útmörk er að finna á myndum 1 og 2 í minnisblaði Magnúsar. Þar er lagt til að mörk verndarsvæðisins fylgi afmörkun jarðhitasvæðisins á Geysi sem áhrifasvæði vegna virkjunarkostsins 78 Geysir. Afmörkunin er í samræmi við niðurstöður lokaskýrslu ráðgjafarhóps um mat á háhitasvæðum (Halldór Ármannsson, o.fl., 2009).

Lagt er til að mörk verndarsvæðisins taki mið af mati sérfræðinga rammaáætlunar auk minnisblaðs M.Ó. í tilfelli virkjunarkostsins 78 Geysir.

Frestur til að skila athugasemdum

Frestur til að skila athugasemdum er til og með 3. júní 2020. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við tillöguna og vísar tillögu að friðlýsingarskilmálum til ráðherra. Athugasemdum má skila hér að neðan á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frekari upplýsingar veita Freyja Pétursdóttir (freyjap@ust.is) og Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@umhverfisstofnun.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Upplýsingar

Skrár