Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Arctic Sea Farm hf. vegna laxeldis í Patreks- og Tálknafirði. Starfsleyfi var gefið út vegna eldisins þann 27.12.2018 en var fellt úr gildi af úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem talið var að skorti á umræðu um valkosti í umhverfismati. Unnið er með eldri umsókn og ný gögn sem rekstaraðili hefur lagt fram vegna eldisins.

Umhverfisstofnun telur að mengun verði aðallega í formi lífræns úrgangs (bæði í föstu og uppleystu formi) sem frá eldinu muni berast í viðtakann. Að mati stofnunarinnar eru áhrif mengunarinnar afturkræf og munu því ekki hafa varanlega áhrif á umhverfið. Eldið er kynslóðaskipt og svæði hvíld á milli kynslóða þannig að botninn jafni sig á milli. Breyting á eldissvæði mun ekki breyta afstöðu Umhverfisstofnunar hvað varðar lífrænt álag enda munu kröfur um vöktun í starfleyfi taka á þeim þætti. Er það einnig mat stofnunarinnar að breytingin á eldissvæði sé ekki líkleg til að auka á lífrænt álag í firðinum heldur sé hún til þess fallin að draga úr neikvæðum umhverfisaðstæðum.

Athugasemdir við tillöguna og fylgigögn skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 8. júlí 2019.

Tengd skjöl:
Tillaga að starfsleyfi
Starfsleyfisumsókn
Matsskýrsla Patreks- og Tálknafjörður
Matsskýrsla Patreks- og Tálknafjörður, viðbótargögn
Álit Skipulagsstofnunar
Annað álit Skipulagsstofnunar
Vöktunaráætlun