Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur heimilað flutning á starfsemi erfðabreyttra músa sem var undir leyfi Háskóla Íslands í VRIII í annað rannsóknarhúsnæði á vegum ArcticLAS ehf. að Krókhálsi 5d, 110 Reykjavík.

ArcticLAS ehf. hefur leyfi fyrir rannsóknir á allt að 2.000 erfðabreyttum músum á ári, gefið út 27. ágúst 2014 og gildir til 1. september 2024. Eru þær rannsóknir í sama afmörkunarflokki og leyfi VRIII og gera sömu kröfur um aðstöðu og ráðstafanir vegna mengunarhættu og getur því starfsemi Háskóla Íslands fallið undir það leyfi.

 Umhverfisstofnun hefur móttekið samstarfssamning Háskóla Íslands (kt. 600169-2039) og ArcticLAS ehf. (kt. 550388-1389) um flutninginn og sameiningu starfseminnar. Eftirlit Umhverfisstofnunar með starfsemi ArcticLAS ehf. mun því ná til starfsemi erfðabreyttra músa sem fluttar eru frá rannsóknaraðstöðu VRIII.

Samkvæmt innsendum gögnum umsækjanda er rannsóknaraðstaða í húsnæði ArcticLAS ehf. að Krókhálsi hentugri þar sem búrasamstæður eru nýrri og fullkomnari en þær sem eru í húsnæði VRIII. Þar með telur stofnunin tilfærsluna frekar vera til þess fallin að auka öryggi rannsóknanna m.t.t. áhættu starfseminnar fyrir umhverfið. 
Leitað var álits Vinnueftirlitsins og ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur sem gerðu ekki athugasemdir við flutninginn. Umhverfisstofnun kallaði eftir uppfærðu áhættumati og viðbragðsáætlun mengunar umhverfis af völdum erfðabreyttra músa vegna flutninganna í nýtt húsnæði og hefur stofnunin móttekið þau gögn og metið fullnægjandi.

Umhverfisstofnun tekur fram að flutningarnir fela ekki í sér breytingu á afmörkunarflokkun starfseminnar og þær ráðstafanir til afmörkunar músanna sem leyfishafi þarf að uppfylla skv. 2. viðauka reglugerðar nr. 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera.
Enn verður starfsemi með erfðabreyttar mýs í húsnæði VRIII en það leyfi gildir til dags. 16. nóvember 2026 og verður starfsemin þar áfram undir eftirliti Umhverfisstofnunar.

Starfsemin sem hér um ræðir fellur undir lög um erfðabreyttar lífverur nr. 18/1996 og reglugerð nr. 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera.

Ákvarðanir Umhverfisstofnunar er varða heimild á flutning starfseminnar samkvæmt lögum nr. 18/1996 sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til og með 4. nóvember 2019.